Opna snemma í Hlíðarfjalli

Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli við Akureyri.
Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli við Akureyri. Facebook-síða Hlíðarfjalls

Opið hefur verið í Hlíðarfjalli milli jóla og nýárs milli 10 og 18 en þó var lokað í gær vegna óveðurs.

Venjulegur þjónustutími er frá 13 til 19 en forstöðumaður Hlíðarfjalls segir hefð fyrir því að opna fyrr yfir hátíðarnar þegar fólk er í fríi.

„Aðsóknin hefur verið nokkuð góð. Engar raðir í lyftum, þannig að það má segja að hún sé þægileg,“ segir Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður Hlíðarfjalls, í samtali við mbl.is.

„Ég held við séum ekki að sjá marga utanbæjarmenn núna milli jóla og nýárs. Mér sýnist flestir halda sig bara í sínu bæjarfélagi.“

Ekki þörf á hollum

Ekki hefur enn verið skipt eftir hollum á svæðinu þar sem aðsóknin hefur ekki verið það mikil að það þurfi, að sögn Brynjars, en greint var frá því í fyrradag að skíðasvæði Bláfjalla væri skipt í tvö holl yfir daginn.

„Við bara setjum þau á um leið og við teljum þörf á. Við vitum svona nokkurn veginn hvað við megum hafa marga og höfum ekki séð, á meðan við erum ekki með raðir, þörf á að breyta í holl.

Ég held að þegar við förum að sjá vetrarfrí í skólum og þegar lengra líður á skíðatímabilið, þá setjum við slíkt á.“

Hann segir litla fyrirhöfn að breyta í slíkt fyrirkomulag.

„Þetta tekur okkur enga stund. Við gerðum þetta náttúrlega mikið í fyrra, síðasta vetur, með hollin. Við getum gert þetta bara með dags fyrirvara ef við sjáum að það sé þörf.“

Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður í Hlíðarfjalli.
Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður í Hlíðarfjalli. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Auðveldara í minna bæjarfélagi

„Það er kannski auðveldara fyrir okkur að meta fjöldann í minna bæjarfélagi,“ segir Brynjar. Bláfjöll anni um tíu sinnum stærri hóp af fólki og auðveldara fyrir Hlíðarfjall að áætla fjölda.

Skíðasvæðin tvö séu þó í góðu samstarfi og með sömu reglur þegar kemur að sóttvarnareglum. „Nema við erum ekki með hollin,“ segir Brynjar og bætir við:

„Við biðjum fólk að vera með grímu ef það nær ekki að halda þessum tveimur metrum á milli sín, en eins og segi, ég er búinn að vera upp frá og það hefur aldrei komið röð í stólalyftuna til dæmis.“

Bjartsýnn um skíðaveturinn

Að lokum segist Brynjar vongóður fyrir komandi skíðatímabil.

„Já, þetta fer svona þokkalega af stað. Það hefur náttúrlega verið lítil úrkoma síðustu fimm vikurnar hjá okkur en við höfum verið að framleiða snjó til þess að bæta upp fyrir það. Það er búið að vera gott frost og þetta lítur ágætlega út.“

Búast má við mikilli aðsókn í fjallið í lok janúar og byrjun febrúar þegar vetrarfrí eru í skólum landsins. Verði takmarkanir enn við lýði á þeim hápunkti muni þau grípa til hólfaskiptingar líkt og síðasta vetur.

„Um leið og við sjáum fleiri koma í bæinn förum við að huga að slíku. Ég held að þetta verði bara nokkuð gott.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert