Segir stjórnvöld komin á síðasta séns

„Því þetta eru í rauninni beinar afleiðingar takmarkana,“ segir Aðalgeir.
„Því þetta eru í rauninni beinar afleiðingar takmarkana,“ segir Aðalgeir. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

„Við erum auðvitað óþreyjufull að bíða eftir stjórnvöldum,“ segir Aðalgeir Ásvaldsson, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT), um biðina eftir úrræðum frá stjórnvöldum vegna tekjumissis af völdum takmarkana.

Aðalgeir segir samtökin gera þá kröfu að úrræði verði að vera kynnt samhliða nýjum takmörkunum. Erfitt getur verið að standa skil á föstum kostnaði eins og húsaleigu, launakostnaði og opinberum gjöldum ef engin úrræði eru í boði að sögn hans.

„Því þetta eru í rauninni beinar afleiðingar takmarkana,“ segir Aðalgeir og bætir við að fyrirtæki í veitingageiranum vilji fá sæti við borðið þegar úrræðin eru búin til.

Vilja deila reynslunni

„Við erum tilbúin að deila okkar reynslu. Við erum ekki eini hópurinn sem hefur farið illa út úr faraldrinum en við viljum sýna það sem myndi henta okkur úr því sem komið er.“

Hann segir úrræði stjórnvalda, tekjufallsstyrki og lokunarstyrki, ekki hafa náð vel til veitingamanna.

„Skilyrðin til þess að fá tekjufallsstyrk og lokunarstyrk voru í óhag veitingamannsins, því að framleiðnin í greininni er ekki sérstaklega mikil og hátt tekjufall þýðir í rauninni gjaldþrot.“

Síðasti séns

Jólavertíðin er stærsta vertíð veitingamannsins og hún hefur ekki staðið undir væntingum vegna samkomutakmarkana að sögn Aðalgeirs.

„Það hefur ekki reynst tími til þess að vinna sig upp úr krísunni,“ segir hann og bætir við að næstu þrír mánuðir séu þeir erfiðustu á árinu.

Spurður hvort samtökin hafi leitað réttar síns segir Aðalsteinn samtökin hafa skoðað þann möguleika.

„Okkur finnst það alveg vera á síðasta séns að koma með einhver úrræði fyrir mánaðamót. Fyrir árslok.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert