Urður Egilsdóttir
„Spáin gerir ráð fyrir að við séum með 750 smit á dag eða meira alveg fram í miðjan mars og að þá séum við komin með um 80 þúsund smit um mánaðamótin febrúar-mars,“ segir Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild, í samtali við mbl.is en alls hafa greinst 26.030 smit hérlendis frá því í febrúar árið 2020.
Már segir að spáin sem nú sé unnið eftir geri ráð fyrir að toppi verði náð í kringum þrettándann en 744 smit greindust innanlands í gær.
„Ef þetta gengur eftir þá mun fjölga hjá okkur á legudeildum þannig að um miðjan janúar gætum við séð 60 til 70 manns inniliggjandi á spítalanum og 16 til 20 manns á gjörgæslu.“
Getur spítalinn haldið utan um þann fjölda?
„Þetta er erfið spurning. Í fyrsta lagi vitum við ekki hvort þessi spá gengur eftir og við erum alltaf að bregðast við. Það eru líka önnur verkefni sem eru jafnhliða þessu. Ef þetta verða svona mikil veikindi, þá hreinlega vegna veikindanna sjálfra dregur úr virkni í samfélaginu.“
Már nefnir að 120 starfsmenn spítalans séu nú í einangrun og því eigi nánast hver einasta legudeild erfitt með að halda úti starfsemi.
„Við getum hins vegar ekkert gengið frá verkefninu, við þurfum að glíma við það, en auðvitað er eitthvað sem verður undir að láta. Við getum ekki haldið uppi allri þjónustu allan tímann alveg óháð hverju sem er.“