Stefnt er að því að bólusetja börn á aldrinum fimm til ellefu ára í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu. Þá verður ekkert barn bólusett nema í fylgd forsjáraðila eða þess einstaklings sem forsjáraðili útnefnir sérstaklega.
Þetta kom fram á opnum fundi velferðarnefndar Alþingis um bólusetningu barna sem hófst klukkan tíu í morgun.
Beðið er nú eftir áliti Persónuverndar um hvort þetta falli undir lög og heimildir sem sóttvarnalæknir og heilbrigðisþjónustan hafa nú þegar varðandi bólusetningar.
Ekki verður þó sama fyrirkomulag um land allt en bólusetningar barna sem búsett eru utan höfuðborgarsvæðisins munu að miklu leyti fara fram á heilsugæslustöðvum.
Þetta kom fram í máli Kamillu Sigríðar Jósefsdóttur sem sat fundinn fyrir hönd sóttvarnalæknis, sem þurfti að yfirgefa fundinn fyrr vegna upplýsingafundar almannavarna sem hefst klukkan 11.
Drög að fyrirkomulagi bólusetninga barna á aldrinum fimm til ellefu ára liggja nú fyrir en í upphafi árs 2022 verða sms og/eða tölvupóstar sendir út á forsjáraðila barna á landsvísu sem innihalda hlekk á vefsíðu sem er merkt þeirra barni. Mun forsjáraðilum standa til boða að samþykkja, hafna eða bíða með að taka ákvörðun um bólusetningu barnsins.
Tekið er fram að heimild bólusetningar verði háð samþykki þeirra forsjáraðila sem eiga skráð lögheimili með barninu. Sé annar forsjáraðilinn ósamþykkur verður því ekki veitt heimild. Mun heilsugæslan hafa aðgang að þessum upplýsingum.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að hugmyndin sé sú að hjúkrunarfræðingar sem starfa í skólunum muni koma að skipulaginu og aðstoða við útfærslu bólusetninganna.
Til að gæta að sóttvarna- og persónuverndarsjónarmiðum hefur einnig verið rætt að skóladagurinn verið skertur eða felldur niður þann dag sem bólusetningar fara fram. Þá hefur áhersla verið lögð á að bólusetja í smærri rýmum en ekki stórum og opnum, líkt og þekkist í Laugardalshöll.