Sýnafjöldi langt yfir greiningargetu

Starfsmenn veirufræðideildarinnar hafa staðið í ströngu undanfarna daga.
Starfsmenn veirufræðideildarinnar hafa staðið í ströngu undanfarna daga. mbl.is/Árni Sæberg

Álagið hefur aldrei verið meira á veirufræðideild Landspítalans, nú þegar um 800 smit greinast á dag. Greiningargeta deildarinnar eru 5.000 sýni á dag en nú berast um 8.000 sýni á dag.

Þetta gerir það að verkum að svör um jákvætt eða neikvætt PCR-próf berast seinna en vant er en lokið var við greiningu sýna gærdagsins á milli þrjú og fjögur í dag, að sögn Karls G. Kristinssonar, yfirlæknis á veirufræðideild Landspítalans.

„Við vorum rétt síðasta klukkutímann að svara sýnunum sem komu í gær. Það telst nokkuð gott á alþjóðlegan mælikvarða en auðvitað viljum við svara þessu fyrr,“ segir hann.

Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítala.
Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. mbl.is/Árni Sæberg

30 manns að greina 8.000 sýni

Um 8.000 sýni bárust deildinni í gær en afkastageta hennar miðast við um 5.000 sýni. Svörin berast nokkurn veginn í tímaröð þótt veirufræðideildin viti ekki hvort sýnin eru sett í kassana í tímaröð. 

„Síðan eru sýni að hellast inn í dag líka,“ segir hann.

Um 100 manns starfa á deildinni en þrjátíu við það eitt að greina sýnin. Afkastagetan hefur aldrei verið meiri en nú, líkt og álagið.

Kemur til greina að fá aukinn mannauð eða leita aðstoðar?

„Við erum bara að fara yfir stöðuna núna, skömmu eftir þetta,“ segir hann að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert