Til skoðunar að stytta einangrunina

Fjöldi smita hefur greinst eftir skimanir undanfarna daga.
Fjöldi smita hefur greinst eftir skimanir undanfarna daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sóttvarnalæknir skoðar nú breytingar á leiðbeiningum um einangrun og sóttkví vegna Covid-19 með hliðsjón af nýjum leiðbeiningum sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna frá 27. desember sl. um að stytta einangrun úr tíu dögum í fimm og viðhafa grímuskyldu í fimm daga eftir það.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir koma til greina að stytta einangrun einkennalausra, gefi slíkt góða raun í Bandaríkjunum. Slíkt verði skoðað í samráði við sóttvarnalækni.

- Kæmi þetta til umræðu hér gefi þetta góða raun vestanhafs?

„Já, já, ég held að við verðum að skoða þetta bara í samráði við sóttvarnalækni og við erum auðvitað búin að vera aðeins að ræða þetta,“ segir Willum í samtali við mbl.is.

„Þetta er auðvitað mikil skerðing og það þarf einhvern veginn að meta þetta, hver áhættan af því er að fækka dögunum.“ Einangruninni hér á landi var nýverið breytt í tíu daga fyrir alla sem greinast smitaðir en áður gátu einkennalausir losnað eftir sjö daga. Willum segir það hafa verið gert til einföldunar. „Þetta er ekki alveg einfalt varðandi einkenni og hvernig fólk er að smita.“ Einangrunin hafi verið allt frá sjö og upp í 14 daga eftir einkennastöðu fólks, slíkt hafi reynst flókið. Hann segir það hafi verið einfaldað niður í eina reglu: Tíu daga einangrun með möguleika á að losna fyrr.

Metfjöldi smita

Alls greindust 836 smit innanlands í fyrradag og 57 á landamærum. Bæði mun vera metfjöldi. Um fimm þúsund manns eru nú í einangrun vegna Covid-19 og yfir sjö þúsund í sóttkví.

Hópsmit á hjartadeild Landspítala leiddi til þess að sex bættust við í hóp þeirra sem liggja inni auk eins sem greindist á Landakoti. Útbreiðsla veirunnar meðal starfsmanna er talin halda yfir 100 manns frá störfum og var neyðarstigi lýst yfir á spítalanum í gær. Þríeykið heldur upplýsingafund vegna stöðunnar kl. 11 í dag.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert