Líkur eru á rysjóttu veðri á gamlársdag og mátulega góðu flugeldaveðri, ef þannig má að orði komast. Þetta segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. Norðaustlægar áttir hafa verið ríkjandi á landinu síðustu daga en vindur ætti að ganga niður á gamlársdag. Þegar nýtt ár gengur í garð verður stekkingur af austri víða um landið og á höfuðborgarsvæðinu gæti vindstyrkur verið um 5 m/sek.
„Norðaustanáttin gengur niður og ekki eru horfur á éljum sem heitið getur um norðan- og austanvert landið. Eftir því sem líður á gamlársdag léttir til með hægum vindi. Sums staðar verður strekkingur um kvöldið, en áfram þurrt,“ segir Einar sem bætir við að veðurspár hafi breyst hratt síðustu sólarhringa.
Nokkuð djúp lægð nálgast landið úr suðri á gamlársdag. SV-lands hlánar síðdegis með austanstrekkingi, svo snjóar um miðjan daginn, en síðar rignir. Rigningin verður þó ekki samfelld og á nýársnótt ætti að hafa stytt upp og hiti verður þá sennilega kominn í plús.
„Mögulega verður á höfuðborgarsvæðinu einhver rigning á fyrstu klukkustundum nýja ársins. Svipuð veðrátta verður á Suðurlandi og austur á bóginn, sem er þó forsmekkur að umskiptum á nýársdag þegar hlánar víða um landið,“ segir Einar Sveinbjörnsson.