Vika síðan 300 smita múrinn var rofinn

Innlögnum er ekki enn farið að fjölga með teljandi hætti.
Innlögnum er ekki enn farið að fjölga með teljandi hætti. mbl.is/Jón Pétur

Vika er liðin síðan smitfjöldi innanlands fór yfir þrjú hundruð og hefur hvert metið á fætur öðru verið slegið síðan þá. Fjöldi smita er þó ekki enn farinn að endurspeglast í innlögnum, að sögn Runólfs Pálssonar, framkvæmdastjóra meðferðarsviðs Landspítala.

Þó ber að geta þess að smitin eru tvöfalt fleiri í dag en fyrir viku, á áttunda hundrað talsins, og kann því að vera að þær tölur muni endurspeglast í hærri innlagnatíðni á næstunni. Runólfur segir þá álagið hafa þyngst verulega á veirufræðideild Landspítalans.

Fjöldi innlagðra er svipaður nú (21) og 15. nóvember (22) og hélst tíðnin þá nokkuð stöðug fram til 12. desember (16), dvínaði þegar leið á mánuðinn en jókst síðan aftur yfir hátíðarnar.

Fimm með Ómíkron á spítala en 90% smitaðra með afbrigðið

Fimm á meðal innlagðra eru með Ómíkron-smit en um 90% þeirra smita sem hafa greinst síðustu daga eru Ómíkron. „Maður getur ekki alveg sagt til um innlagnaþörfina í þeim hópi en við fáum nokkra daga í viðbót þar sem stór hópur er sýktur af því afbrigði,“ segir Runólfur.

Hann segir þó allt benda til þess að innlagnatíðnin sé lægri nú en í fyrri bylgjum og veikindin ekki jafn alvarleg, en það bendir til þess að sjúklingar útskrifist fyrr. „Það sem af er lítur þetta ágætlega út hvað það snertir,“ segir Runólfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert