Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur greinst með Covid-19.
Þetta staðfestir Vilhjálmur í samtali við mbl.is. Segir hann að niðurstöður á sýni hans hafi legið fyrir klukkan þrjú í nótt en Vilhjálmur var í sóttkví skömmu fyrir jól vegna smits á heimili hans.
Losnaði hann úr sóttkví rétt í tæka tíð til að taka við stjórn á þingflokki sjálfstæðismanna eftir að Óli Björn Kárason þingflokksformaður greindist með veiruna en Vilhjálmur er varaþingflokksformaður.
Spurður hver stýri þingflokkinum þar sem þeir báðir séu smitaðir af Covid-19 segir Vilhjálmur að stutt sé í að Óli losni úr einangrun og allt sem mæta þurfi á fram að því sé fjarfundir.
Þegar eru Bjarni Benediktsson, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Birgir Ármannsson auk Óla Björns, allt þingmenn Sjálfstæðisflokks, í einangrun með Covid-19.