Verulega er farið að draga úr landrisinu á Reykjanesskaga samfara því sem það hægist á skjálftavirkninni. Ekki liggur fyrir hvort þessi framvinda sé merki um að virkni sé að minnka eða sé fyrirboði eldgoss. Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur Veðurstofunnar á sviði jarðskorpuhreyfinga.
Eins og komið hefur fram í fyrri fréttaflutningi er þróunin á Reykjanesskaga undanfarna daga farin að líkjast verulega aðdraganda eldgossins sem hófst í mars á árinu.
Að sögn Benedikts er hegðunin í raun „nákvæmlega eins“ nema hvað atburðarásin er ekki jafn umfangsmikil.
„Þetta var þriggja vikna ferli áður en það byrjaði gos. Það dró úr landrisinu og svo gaus í kjölfarið. Nú hefur þetta gengið mun hraðar fyrir sig og landrisið miklu minna.“
Hann bætir þó við að þrátt fyrir að atburðurinn sýnist ekki jafn stór og sá sem var uppi í aðdraganda eldgossins fyrr á árinu þá útiloki það ekki að álíka magn af kviku sé nú á ferð.
„Kvikan er að fara inn í skorpu núna sem er nýbúin að taka við kviku. Það er kannski bara minni fyrirstaða en áður.“
„Við höfum verið að meta innflæði eftir að gosinu lauk – innflæðið er á dýpi við sjáum það bara á landrisinu – og það hefur verið mjög svipað og var í eldgosinu þannig að það er kvika að koma djúpt inn í skorpuna af svipuðu magni og við vorum að sjá koma upp á yfirborðið í gosinu. Við erum að vona að þetta sé mjög svipað magn af kviku og svipað flæði sem er í gangi.“
Hann segir ekki mikla hættu stafa af mögulegu eldgosi. Hins vegar gæti ógn steðjað að Suðurstrandarveginum komi sprunga upp sunnar en síðast, verður vegurinn þá opinn fyrir hraunflæði.
„Nú er bara að bíða og sjá hvað gerist. Hvort það kemur gos eða hvort þetta hættir.“