Píratinn Björn Leví Gunnarsson hefur tekið forystuna í keppninni um ræðukóng Alþingis eftir fyrstu lotu nýs þings, 152. löggjafarþings.
Alþingi var sett 23. nóvember að loknum alþingiskosningum 25. september og því var frestað 28. desember. Þing mun koma saman á ný mánudaginn 17. janúar nk.
Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur sett sitt mark á þingstörfin og margir varamenn hafa verið kallaðir inn vegna veikinda og sóttkvíar þingmanna. Samkvæmt yfirliti á vef Alþingis hafa 89 alþingismenn og varamenn þeirra tekið til máls á þinginu það sem af er 152. löggjafarþinginu, en þingmenn eru sem kunnugt er 63 talsins. Björn Leví Gunnarsson hefur flutt 25 ræður og gert 96 athugasemdir. Hann hefur talað í samtals 374 mínútur, eða rúmar sex klukkustundir. Björn Leví vék af þingi fyrir varamanni milli jóla og nýárs. Næstur á eftir Birni kemur annar Pírati, Andrés Ingi Jónsson. Hann flutti 90 ræður/athugasemdir og talaði í 312 mínútur. Í þriðja sæti er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sem flutti 88 ræður/athugasemdir og talaði í 253 mínútur. Þorgerður greindist með Covid og vék af þingi 20. desember. Í fjórða sæti er Bergþór Ólason, Miðflokki (87/250), og í fimmta sæti kemur Jóhann Páll Jóhannsson, Samfylkingu (75/216).
Ræðukóngur þriggja síðustu þinga, Birgir Þórarinsson, hafði fremur hægt um sig að þessu sinni. Hann flutti 13 ræður/athugasemdir og talaði í 59 mínútur. Birgir var kosinn á Alþingi fyrir Miðflokkinn en gekk í Sjálfstæðisflokkinn fljótlega eftir kosningar.
Á vef Alþingis kemur fram að það sem af er 152. löggjafarþinginu voru fluttar 581 þingræða í 3.315 mínútur (55,25 klst.) og 1.256 athugasemdir í 1.834 mín. (30,57 klst.). Meðallengd þingræðu var 5,7 mínútur og aths. 1,5 mínútur.