Bláa lónið styrkir íþróttafélög á Suðurnesjum

Fulltrúar íþróttafélaga sem tóku við styrkjum, á veitingastaðnum Lava í …
Fulltrúar íþróttafélaga sem tóku við styrkjum, á veitingastaðnum Lava í Bláa Lóninu, ásamt Helgu Árnadóttur framkvæmdastjóra hjá félaginu. Ljósmynd/Aðsend

Núna á aðventunni veitti Bláa lónið íþróttafélögum á Suðurnesjunum styrki sem er ætlað að styðja við uppbyggingu barna- og unglingastarfs á svæðinu. Andvirði styrkjanna er rétt um sjö milljónir króna og eru þeir 11 talsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Það er mikilvægt að hafa fyrirtæki eins og Bláa lónið sem kemur að fyrra bragði og styður við íþróttahreyfinguna í þessu erfiða rekstrarumhverfi. Fyrir það ber að þakka. Stuðningur sem þessi sýnir í verki mikilvægi samfélagslegrar ábyrgðar og við þökkum stjórnendum Bláa lónsins fyrir áratuga stuðning við íþróttalíf á svæðinu,“ sagði Einar Haraldsson, formaður Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags, við afhendingu styrkjanna.

„Það er afar ánægjulegt fyrir Bláa lónið að geta nú stutt aftur með öflugum hætti við hið mikilvæga og óeigingjarna íþrótta- og æskulýðsstarf sem unnið er innan íþróttahreyfingarinnar í nærsamfélaginu. Bláa lónið hefur um margra ára skeið stutt við íþróttastarfið á Suðurnesjunum og við hlökkum til áframhaldandi góðs samstarfs.“ sagði Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert