Ekki þarf að færa ærslabelg á Ísafirði

Tekist hefur verið á um staðsetningu belgsins í um þrjú …
Tekist hefur verið á um staðsetningu belgsins í um þrjú ár. mbl.is/Sigurður Bogi

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað kæru um að ærslabelgur á Eyrartúni á Ísafirði verði færður. Tekist hefur verið á um staðsetningu belgsins í um þrjú ár.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar í sumar kærði eigandi Túngötu 5 þá ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar að verða ekki við beiðni hans um að færa ærslabelginn. Var þess krafist að ákvörðunin yrði felld úr gildi.

Ekki hugað að öryggi

Í málsrökum kæranda er m.a. bent á að með ákvörðun sinni um að staðsetja ærslabelg á Eyrartúni og færa hann nær Túngötu 5 hafi verið brotið gegn andmælarétti íbúa í nærumhverfi framkvæmdarinnar enda hafi ekki farið fram grenndarkynning. Ekki hafi verið hugað að umferðaröryggi eða aðgengi. Þá hafi ekki verið fengið leyfi hjá Minjastofnun fyrir framkvæmdinni á Eyrartúni, eins og beri að gera samkvæmt lögum um menningarminjar, en bæði sé Eyrartún friðhelgað svæði og njóti hverfisverndar.

Gerði ekki athugasemdir

Í málsrökum Ísafjarðarbæjar kemur fram að rétt sé að Eyrartún falli undir hverfisvernd, en í henni felist ekki lögformleg friðun heldur sé með hverfisvernd verið að leitast við að varðveita gömul hús sem hafi verndargildi. Það sé á hendi sveitarstjórnar að taka ákvörðun um hverfisvernd með skipulagsáætlunum og að henni sé ekki ætlað að koma í veg fyrir uppbyggingu og þróun í hverfum. Minjastofnun hafi eftirlit með friðuðum húsum og minjum en Eyrartún sé ekki friðað í heild sinni heldur einungis lóð safnahússins, húsið sjálft og friðlýstar minjar bæjarhólsins. Þá hafi Minjastofnun verið upplýst um breytingar á deiliskipulagi svæðisins í nóvember 2018 og engar athugasemdir hafi borist vegna þessa.

Í samræmi við skipulag

Í niðurstöðum úrskurðarnefndarinnar kemur m.a. fram að samkvæmt aðalskipulagi teljist Eyrartún opið svæði til sérstakra nota og falli túnið undir hverfisvernd. Í gildandi deiliskipulagi Eyrarinnar á Ísafirði sé Eyrartún skilgreint sem leiksvæði og almenningsgarður og gert sé ráð fyrir sparkvelli næst gæsluvelli, þar sem ærslabelgurinn sé nú staðsettur.

„Verður að telja að staðsetning ærslabelgsins sé í samræmi við gildandi aðal- og deiliskipulag svæðisins,“ segir í úrskurðinum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert