Kæru á hendur Matthildi Ásmundardóttur, bæjarstjóra Hornafjarðar, og eftir atvikum fleiri kjörnum fulltrúum og starfsmönnum sveitarfélagsins, vegna meintrar tilraunar til að hafa fé af félaginu Hátíðni ehf. með ólögmætum eða saknæmum hætti, hefur verið vísað frá hjá lögreglunni á Suðurlandi.
Er rannsókn málsins vísað frá á þeim forsendum að um einkaréttarlegan ágreining sé að ræða sem ekki verði leyst úr með sakamálarannsókn.
mbl.is greindi frá málinu í gær, en kæran var lögð fram vegna mögulegs auðgunarbrots og brots í opinberu starfi.
Lögmaður kæranda segir í samtali við mbl.is að frávísun lögreglu standist ekki skoðun og að fullt tilefni sé að rannsaka málið frekar.
Ljóst sé að málið hafi ekki verið skoðað af fullnægjandi hátt af hálfu lögreglu. Frávísun málsins hefur þegar verið kærð til ríkissaksóknara, samkvæmt upplýsingum frá lögmanni kæranda.
Forsaga málsins er að Hornafjörður var með þjónustusamning við Hátíðni ehf. um rekstur tölvu- og upplýsingakerfis í tugi ára en samningnum var sagt upp í júní 2017. Hluti af þjónustunni voru gagnatengingar sem sveitarfélaginu bar að hætta allri notkun á við samningslok.
Samkvæmt kærunni var notkun hins vegar ekki hætt og sendi Hátíðni sveitarfélaginu reikninga fyrir notkuninni. Um þá skapaðist ágreiningur og hafa þeir ekki verið greiddir þrátt fyrir greiðsluáskoranir, en dómsmál vegna þess máls er nú rekið fyrir héraðsdómi Austurlands.
Í kærunni kemur fram að í tilraun sveitarfélagins til að komast undan greiðsluskyldu hafi verið útbúinn ólögmætur reikningur á Hátíðni ehf., vegna meintrar leigu á aðstöðu í Gamla vatnstanknum, húsnæði í eigu sveitarfélagsins. En eigandi félagsins hefur verið með lítið loftnet uppi á tanknum.
Hafnar hann greiðsluskyldu á þeim forsendum að samkomulag hafi verið í gildi á milli hans og sveitarfélagsins þess efnis að hann hafi lykil að vatnstanknum og þjónusti sveitarfélagið, meðal annars með því að hleypa inn starfsmönnum fjarskiptafyrirtækja sem eru þar með búnað, yfirleitt á kvöldin og um helgar svo sveitarfélagið þurfi ekki að ræsa út starfsmenn með tilheyrandi kostnaði. Þetta hefur fyrrverandi forstöðumaður sveitarfélagsins staðfest. Þá sé loftnetið hans persónulega eign en ekki fyrirtækisins.