Ari Páll Karlsson
Íslensk erfðagreining mun greina öll PCR-innanlandssýni sem tekin eru á Suðurlandsbraut 34 frá og með deginum í dag. Er það gert í þeim tilgangi að létta á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans.
Mikið álag hefur verið á deildinni síðustu daga, eða allt frá því Ómíkron-smitum fór að fjölga hér á landi, en fjöldi sýna á dag hefur fjölgað meira en dagleg greiningargeta deildarinnar.
„Það voru farin að koma yfir 8.000 sýni á dag og deildin annar um 4.500 á dag,“ segir Guðrún Svanborg Hauksdóttir, yfirlæknir deildarinnar, í samtali við mbl.is.
Guðrún segir sýnin hafa verið farin að safnast upp sem hafi orsakast í gríðarlega löngum svartíma. Það muni nú breytast með hjálp úr Vatnsmýrinni.
„Þetta flýtir sýnasvörun mikið,“ segir hún og bætir við að megi búast við að ÍE taki um 3.000 sýni á dag.
Sýkla- og verufræðideildin mun enn annast öll önnur sýni sem ekki koma af Suðurlandsbrautinni, svo sem landamærasýni og sýni af öðrum heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins og utan af landsbyggð.