Lauginni lokað og gestir reknir upp úr

„Þessir starfsmenn geta ekki unnið heima,“ segir Steinþór.
„Þessir starfsmenn geta ekki unnið heima,“ segir Steinþór. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Árbæjarlaug var lokað í dag og voru allir baðgestir reknir upp úr, um klukkan fjögur síðdegis.

Var sú ákvörðun tekin vegna manneklu af völdum takmarkana yfirvalda, til að stemma stigu við útbreiðslu faraldurs kórónuveirunnar. Fjöldi starfsmanna er nú í sóttkví en laugin verður opnuð aftur í fyrramálið.

Loka þurfi Sundhöllinni í kvöld

Þetta staðfestir Steinþór Einarsson, skrifstofustjóri hjá íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar, í samtali við mbl.is.

Steinþór telur einnig líklegt að loka þurfi Sundhöll Reykjavíkur klukkan sjö í kvöld.

„Í gærmorgun þurftum að loka Vesturbæjarlaug en hún opnaði aftur klukkan tvö.“

Líklegt að lokanir haldi áfram

Hann bendir þó á að fjölmargar sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu séu opnar. 

Steinþór segir að meðan ástandið sé svona sé líklegt að sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu haldi áfram að loka með stuttum fyrirvara næstu daga.

„Málið er að við erum að vinna eftir reglugerð. Við verðum að hafa ákveðinn fjölda af laugarvörðum. Þannig að við getum ekki opnað nema við séum með þjálfaða laugarverði,“ segir Steinþór.

„Þessir starfsmenn geta ekki unnið heima,“ bætir hann við og hlær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert