Mánaðarlaun hækka um áramótin um 17.250 krónur samkvæmt lífskjarasamningunum svonefndu og lágmarkstaxtar hækka um 25 þúsund krónur. Drífa Snædal, forseti ASÍ, telur hækkunina ekki vera „neina ofrausn“ heldur einungis milda aukinn kostnað.
„Þarna erum við að halda áfram á þeirri vegferð sem samið var um 2019 að hækka lægstu launin sérstaklega og reyna að hífa taxtana upp til að mæta því sem kostar að lifa, í því ljósi að það er allt að hækka núna, hvort sem það er húsnæði, matur eða samgöngukostnaður,“ segir Drífa. „Launahækkanirnar núna eru engin ofrausn miðað við ástandið þar sem allt er að verða dýrara.“
Ýmsar skattabreytingar verða um áramótin. Þannig hækkar persónuafsláttur um rúmar 3 þúsund krónur á mánuði og verður 53.916 krónur, sem hefur það í för með sér að skattleysismörk tekjuskattsstofns hækka úr 161.501 krónu í 171.434 krónur.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag.