Markmiði ársins náð

Hjónin Steinunn Ólöf Benediktsdóttir og Arnar Hallgrímur Ágústsson á toppi …
Hjónin Steinunn Ólöf Benediktsdóttir og Arnar Hallgrímur Ágústsson á toppi Úlfarsfells í 150. ferðinni, uppáklædd!

Hjónin Steinunn Ólöf Benediktsdóttir og Arnar Hallgrímur Ágústsson settu sér það markmið að ganga 150 sinnum á Úlfarsfell í ár og náðu því í nóvember. „Áskorunin felst fyrst og fremst í því að svíkjast ekki um heldur fylgja settu marki,“ segir Arnar og bætir við að það geti verið hægara um að tala en í að komast.

Stöðugt er rætt um líkamsrækt og mikilvægi þess að setja sér markmið. Arnar segir að markmiðasetningu fylgi ákveðin kvöð og ekki gangi til lengdar að slá slöku við, því þá hlaðist syndirnar upp og erfiðara verði við að eiga. Að sama skapi geti fastir liðir gert lífið auðveldara og því geti það að ganga daglega á Úlfarsfellið verið minnsta mál fyrir suma. Mikilvægt sé að ætla sér ekki um of. „Við gengum til dæmis aldrei á Úlfarsfell í júlí. Það þýddi að við þurftum að leggja harðar að okkur í kjölfarið. Einn daginn fórum við fjórum sinnum upp og niður til að vinna á móti aðstæðum sem gerðu það að verkum að við slepptum því að ganga á fellið.“

Víkka hringinn

Arnar er ættaður frá Steinstúni í Árneshreppi á Ströndum, bjó þar fram á unglingsár og hefur farið þangað í göngur árlega frá því hann flutti suður 16 ára auk þess sem hann var í sveitinni á sumrin þar til hann fór í háskóla. „Fjallaferðir voru þá aðallega farnar til þess að smala og finna kindur en þegar ég var 12 ára byrjaði ég að ganga til rjúpna með eldri bræðrum mínum og við ásamt frænda okkar höfum gert það á hverju hausti síðan.“

Arnar segir að þau Steinunn hafi snemma tekið sameiginlega ákvörðun um að hreyfa sig reglulega. Þau hafi byrjað að ganga í Grafarvoginum, þar sem þau búa, síðan hafi þau keypt sér hjól og hjólað reglulega, göngur á Úlfarsfell og upp að Steini á Esjunni hafi bæst við og í fyrra hafi þau farið út fyrir nærumhverfið og meðal annars gengið einu sinni á Keili og nokkrum sinnum á Helgafell við Hafnarfjörð og Akrafjall. 

Nánari umfjöllun er í Morgunblaðinu sem kom út 29. desember.  

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert