Óbólusettir endurskoði sína ákvörðun sem fyrst

mbl.is/Jón Pétur

Farsóttanefnd og viðbragðsstjórn Landspítalans hafa þungar áhyggjur af þeim hópi fólks sem ekki hefur látið bólusetja sig. Þau segja að tölur um fjölda innlagna og alvarlegra veikinda meðal fólks í þessum hópi tali sínu máli.

Fram kemur í tilkynningu, að frá upphafi fjórðu bylgju í sumar hafi 43% innlagna (110 einstaklingar) verið úr hópi óbólusettra sem telji um 27 þúsund manns á meðan 54% innlagna (140 einstaklingar) hafi komið úr hópi fullbólusettra sem eru nær 300 þúsund. Nú sé svo komið að 5 af 6 sjúklingum á gjörgæslu séu óbólusettir.

„Starfsfólk Landspítala biðlar til þeirra sem valið hafa að láta ekki bólusetja sig að endurskoða þá ákvörðun hið fyrsta; þeirra vegna, spítalans vegna og í þágu samfélagsins alls,“ segir í tilkynningunni. 

Þá kemur fram, að allt frá fyrstu bylgju Covid-19 faraldurs hafi Landspítali stuðst við spálíkan um álag af völdum Covid-19 við skipulagningu á þeim aðgerðum sem gripið sé til. Þetta spálíkan hafi verið uppfært m.t.t. þeirra forsendna sem þekktar séu um hið nýja Ómíkron-afbrigði veirunnar og byggi á spá Thors Aspelund um fjölda smita í yfirstandandi bylgju. Spálíkanið meti álag á Covid-göngudeild, legudeildir og gjörgæsludeildir auk þess að spá fyrir um fjölda smitaðra barna og fjölda sýna sem þurfi að greina á sýkla- og veirufræðideild.

Búast má við töluverðu álagi þrátt fyrir að innlagnarhlutfall sé lægra en í fyrri bylgjum

„Forsendur núverandi spár gera ráð fyrir innlagnarhlutfalli upp á 0,7% sem er í samræmi við innlagnartíðni t.d. í Danmörku og Bretlandi. Að öðru leyti tekur líkanið mið af sögulegum gögnum spítalans ásamt aldri og bólusetningarstöðu smitaðra, m.a. til að meta legutíma og líkur á gjörgæsluinnlögn.

Þar sem yfirstandandi bylgja stefnir í umtalsvert fleiri smit en þekkist úr fyrri bylgjum má búast við töluverðu álagi á spítalann þrátt fyrir að innlagnarhlutfall sé lægra en í fyrri bylgjum. Strax upp úr áramótum má því gera ráð fyrir að 25 Covid sjúklingar verði á legudeild og átta á gjörgæslu. Ef ekki tekst að draga úr fjölda smita mun fjöldi inniliggjandi sjúklinga vaxa hratt og í kringum 10. janúar geta orðið allt að 60 Covid sjúklingar á legudeildum og 15 á gjörgæslu,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir, að ljóst sé að hið nýja Ómíkron-afbrigði hegði sér talsvert öðruvísi en fyrri afbrigði veirunnar. Þó svo að draga megi lærdóm af reynslu í öðrum löndum þá sé enn ekki ljóst hver útkoman sé miðað við aðstæður hér á landi, t.d. stöðu örvunarbólusetninga og eftirlit á göngudeild Covid.

„Meðan svo er þá er erfitt að spá fyrir um álag á heilbrigðiskerfið en núverandi spá gefur þó hugmynd um hver útkoman gæti orðið miðað við það sem vitað er um hegðun veirunnar í öðrum löndum,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert