Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir mjög skiljanlegt að margir séu orðnir þreyttir og pirraðir á kórónuveirufaraldrinum og þeim aðgerðum sem þurft hafi að grípa til, til að hefta útbreiðslu smita. Það breyti þó ekki stöðunni. Þá sé ekki hægt að líta á kórónuveiruna sem hefðbundið kvef og óábyrgt sé að halda því.
Hann segist þó telja að mjög margir skilji út á hvað sóttvarnaaðgerðir gangi og virði þær reglur og takmarkanir sem settar eru.
„Svo eru aðrir sem eru jú pirraðir og reiðir og þeir eru háværir, maður gæti kannski haldið að það væri stór hópur, en maður veit ekki hvað hann er stór. Auðvitað er það skiljanlegt að fólk sé orðið þreytt á þessu, en þetta hverfur ekki við að vera þreyttur og pirraður. Það breytist ekkert við það og það breytist ekkert við að loka augunum og skella skollaeyrum við því sem við erum að sjá og upplifa og reyna,“ segir hann í samtali við mbl.is.
„Þannig við þurfum bara að reyna að miða okkur við hvað er í gangi, hverju aðgerðir okkar eru að skila, hverju eru bólusetningar að skila, hvaða afbrigði erum við að eiga við, hversu hættulegt er það og miða aðgerðir okkar við það.“
Það skipti í raun engu máli hvað aðgerðirnar varðar, hve lengi faraldurinn hefur staðið yfir.
„Það er ekki leið, að mínu mati, af því að við erum búin að eiga við þetta svo lengi, í tvö ár, að þá bara eigum við að hætta öllu. Á meðan þetta allt er í gangi. Það er engin þjóð sem gerir það. Ég þekki það ekki. Ég held að það væri algjörlega að bjóða hættunni heim að taka þá afstöðu.“
Þannig að við erum ekki farin að líta á þessu veiru sem hefðbundið kvef?
„Nei, það er ekki hægt að líta á þetta sem hefðbundið kvef, enda er engin þjóð sem gerir það, enginn ábyrgur aðili. Það eru ýmsir óábyrgir aðilar sem halda því fram en það bara stenst ekki neina skoðun.“
Hann segir það engu breyta þótt þingmenn og jafnvel ráðherrar tali á þessum nótum. Slíkt tal verði ekki ábyrgara fyrir vikið.
„Já, það eru margir sem hafa talað svona, en það er ekkert ábyrgara fyrir vikið þótt það séu ráðherrar eða þingmenn eða einhverjir aðrir. Að mínu mati. Það stenst ekki skoðun. En mér finnst alveg rétt að velta öllum flötum upp um aðgerðir, hverju þær eru að skila, hvaða aukaverkunum þær valda, hvað er réttlætanlegt að takmarka frelsi fólks mikið og svoleiðis. Þetta eru alveg réttmæt sjónarmið og þurfa að skoðast í þessu samhengi, eins og hefur verið gert.”
Þórólfur viðurkennir að hann hafi fundið meira fyrir því að fólk sé orðið pirrað út í hann persónulega vegna þeirra reglna og takmarkana sem eru í gildi.
„Jú það hefur borið meira á því. Fólk er pirrað út í ástandið og ég hef verið dálítið mikið andlitið út á við fyrir þessar aðgerðir og Covid-baráttuna og þá er kannski nærtækt og auðveldast að láta það bitna á eða koma niður á mér. En ég veit ekki hversu útbreitt það er. Það eru oft sömu aðilarnir og ég er ekkert að kippa mér upp við það. Sumt er ágætlega málefnalega fram borið en annað er mjög ómálefnalegt eins og gengur, en það er bara eitthvað sem ég verð að sætta mig við.
Þú tekur því ekki persónulega?
„Nei ég tek því ekki persónulega. Þetta er yfirleitt fólk sem þekkir mig ekki neitt.“
Hvernig finnst þér faraldurinn hafa þróast ef þú horfir til baka yfir þetta ár?
„Þetta hefur náttúrulega verið svona rússíbanareið upp og niður. Við höfum verið að herða og slaka og borið von í brjósti um að bólusetningin myndi klára þetta fyrir okkur en svo komu bara ný afbrigði sem settu þetta einhvern veginn á hliðina og við höfum þurft að aðlaga okkur nýjum hlutum.
Við höfum svo sem verið undir það búin og talað um að við þurfum að búast við óvæntum hlutum eins og því að ný afbrigði komi fram og bólusetningar virki ekki alveg eins vel og við héldum. Það er það sem við erum að sjá og það sem hefur einkennt þetta ár finnst mér, í baráttunni við Covid.“