Þótt kórónuveirufaraldurinn verði áfram stórt verkefni verða afleiðingar hans og loftslagsváin ekki síður stór verkefni fyrir ríkisstjórnina á komandi kjörtímabili. Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna í svokallaðri Beinni línu á Facebook-síðu sinni í dag.
Katrín var til svara í óundirbúnum fyrirspurnum í Beinu línunni á Facebook kl. 12 í dag en streymt var frá Beinu línunni bæði á Facebooksíðu Katrínar og mbl.is. Þá var fólk hvatt til þess að skrifa Katrínu spurningar í athugasemdum við streymið eða senda þær á vg@vg.is.
Var Katrín m.a. annars spurð hvaða verkefni væru stærst á komandi ári fyrir utan kórónuveirufaraldurinn. Svaraði hún því svo að fyrir utan heimsfaraldurinn væri loftslagsváin stærsta verkefni allra þjóða heims.
„Við vorum að uppfæra okkar markmið í þeim málum. Við erum núna búin að boða sjálfstætt landsmarkmið upp á 55% samdrátt í þeirri kolefnislosun sem Ísland ber ábyrgð á. Þannig það verður risastórt verkefni að endurskoða aðgerðaráætlun í loftslagsmálum þannig að við getum náð þessum markmiðum. Núverandi aðgerðaráætlun er metnaðarfull en sú næsta verður að vera enn metnaðarfyllri“.
Önnur áskorun verður svo að eiga við afleiðingar kórónuveirufaraldursins á komandi kjörtímabili, ekki síst hvað varðar andlega líðan fólks, sagði Katrín. Það verkefni snúist þó ekki einungis um geðheilbrigðisþjónustu, þó hún sé vissulega mikilvægur þáttur, að sögn hennar.
„Þetta snýst um það hvernig samfélag við viljum byggja. Við ætlum að halda áfram að vinna að velsældaráherslum í allri okkar áætlanagerð en þær snúast einmitt um að skapa samfélg þar sem fólki getur liðið vel. Eitt lítið dæmi er að stytta vinnutíma svo það sé auðveldara fyrir fólk að ná þessu mikilvæga jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Þar náðum við mikilvægum skrefum á síðasta kjörtímabili og verðum við að halda áfram á þeirri braut.“
Spurð hvers vegna markmið Íslands í loftslagsmálum séu ekki róttækari en þau eru sagði Katrín að áhersla sé lögð á að markmiðin séu raunhæf svo hægt sé að ná þeim.
„Það eru þjóðir sem hafa sett fram róttækari markmið, sem ganga lengra, en hversu raunhæf þau eru ætla ég ekki að dæma um. Ég held hins vegar að okkar markmið eigi það sameiginlegt að vera bæði metnaðarfull og raunhæf. T.d. erum við búin að lögleiða markmið okkar um að verða kolefnishlutlaus árið 2040 og ef við horfum á það í alþjóðlegu samhengi þá er Ísland eitt af fáum þjóðum sem hefur lögbundið þetta markmið og það er í raun býsna metnaðarfullt samanborið við margar aðrar þjóðir.“
Þá nefndi hún aftur dæmi um hið sjálfstæða landsmarkmið upp á 55% samdrátt í þeirri kolefnislosun sem Ísland ber ábyrgð á og sagði það „mjög metnaðarfullt“, sérstaklega fyrir þjóð sem komin væri ansi langt í því að nýta endurnýjanlega orku, t.d. til upphitunar húsa og í rafmagnsframleiðslu.
„Það þýðir að okkar verkefni eru kannski aðeins öðruvísi en verkefni ýmissa þjóða sem við berum okkur saman við sem eru enn að nota óendurnýtanlega orkugjafa í þetta. Þarna þurfum við líka aðeins að horfa á hver losunarprófíll Íslands er.
Við erum t.d. með töluverða losun frá landnotkun og þar þurfum við að vera meðvituð um að það getur tekið ákveðinn tíma að ná árangri. Þannig ég segi að markmiðin eru metnaðarfull en þau eru líka raunhæf. Ég held það skipti öllu máli að setja hlutina ekki fram án þess að hafa hugmynd um hvernig maður ætlar að ná þeim heldur miklu frekar að uppfylla það sem maður ætlar sér að ná.“