„Þetta er ekki dagaspursmál. Þetta er ekki þannig að eftir áramót verði þetta búið. Þetta mun taka einhvern tíma, en hvað það verður langur tími er erfitt að segja,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is aðspurður hvenær við megum búast við að hægt verði að fara að aflétta sóttvarnaaðgerðum.
Í máli hans á upplýsingafundi almannavarna í gær kom fram að ef það reynist rétt að Ómíkron-afbrigði kórónuveruveirunnar valdi vægari einkennum og færri sjúkrahúsinnlögnum, sem virðist vera raunin, þá verði fljótlega hægt að fara að aflétta aðgerðum og hverfa aftur til eðlilegra lífs.
Þórólfur segir hins vegar ýmislegt óljóst enn þá og því ekki hægt segja til um hvenær hægt er að fara í einhverjar afléttingar. Til stendur þó að stytta einangrun einkennalausra niður í sjö daga í stað tíu daga eins og hún hefur verið, en það mun skýrast í dag. Það yrði þá læknis að meta hvort sjö daga einangrun væri nóg og hún lengd upp í tíu daga ef þörf er talin á.
En hvað þarf að gerast áður en við getum farið að aflétta sóttvarnaaðgerðum?
„Við þurfum að sjá hvernig þetta þróast. Við erum ekki farin að geta sagt með vissu hvernig þetta Ómíkron-afbrigði hegðar sér hjá okkur. Hversu margir veikjast alvarlega. Við erum ekki farin að sjá smit inn í viðkvæma hópa og hjá börnum. Það er bara ýmislegt sem á eftir að skýrast betur sem gefur okkur meiri vitneskju um hvernig þetta er.“
Hve langur tími þarf að líða þar til við sjáum alveg hvort spítalainnlagnir eru færri?
„Við þurfum að sjá aðeins eftir áramót hvernig þetta liggur og hvernig þróunin er og skoða þá hvað við getum gert í framhaldinu í ljósi upplýsinganna. Við erum með ákveðna reglugerð í gildi og okkur liggur ekkert til að breyta henni eins og staðan er,“ segir Þórólfur, en núverandi reglugerð gildir til 12. janúar næstkomandi
Hann bendir á að við höfum verið að sjá svipaðan fjölda af smitum síðustu daga, en á síðasta sólarhring var enn eitt met slegið þegar 839 smit greindust innanlands og 87 á landamærunum.
„Hvað það þýðir nákvæmlega, hvort við séum að ná einhverjum toppi eða hvort þetta á eftir að fara aftur upp eða niður. Það vitum við náttúrulega ekki. Svo þurfum við líka að sjá hvað gerist á spítalanum. Það lögðust inn tveir í gær og einn útskrifaðist. Þetta er svona í horfinu, en við fengum þessi smit inn á spítalann sem gerir það að verkum að heildarfjöldi Covid-smitaðra þar eru um 20 manns. En það eru ansi margir á gjörgæslu og fimm í öndunarvél. Þetta er ansi stór hópur. Við þurfum því að sjá hvað gerist á næstunni áður en hægt er að ræða það frekar um einhverjar afléttingar, finnst mér.“
Hann segir það ekki að ástæðulausu að einangrun og sóttkví sé beitt en tilgangurinn sé að reyna að tempra útbreiðslu smitanna. Smit séu nú gríðarlega útbreidd í samfélaginu sem geri fyrirtækjum mjög erfitt fyrir. Staðan yrði enn verri ef aðgerðum yrði aflétt.
„Ef við gerðum það, þá fengjum við bara enn þá fleiri smit og enn þá meiri alvarleg veikindi. Þannig að menn verða að líta á þetta í því samhengi.“
En nú vilja margir meina að einmitt þessar aðgerðir, einangrun einkennalausra og sóttkví, séu að hafa meiri áhrif heldur en sjúkdómurinn sjálfur. Hvað segir þú við því?
„Línan þarna á milli er ekki alveg klár. En það er alveg ljóst þetta álag á spítalann með þeim aðgerðum sem eru í gangi. Ef við myndum hætta einangrun þá myndum við fá meiri útbreiðslu og hraðari útbreiðslu með meiri afleiðingum. Það er ekki bara hægt að líta á afleiðingarnar af aðgerðunum núna, sóttkví og einangrun, það verður að líka að líta á hvað myndi gerast ef við hættum þessu eða myndum verulega skerða þetta þannig við fengjum meiri líkur á smitum. Þessi lína er ekki alveg klár en við erum að reyna að gera ekki of mikið en ekki of lítið.“
Það sé því enn litið svo á að það myndi hafa meiri alvarlegar afleiðingar í för með sér ef aðgerðum yrði aflétt.
„Já, þá fengjum við fleiri smit og tölulega fleiri leggjast inn á spítalann. Það er það sem við erum að tala um, að reyna að vernda spítalann. Það fer þá að koma niður á öðrum sjúklingahópum og það kemur svo sannarlega líka niður á starfsemi fyrirtækja. Það verður ekki bara sleppt og haldið í sömu andránni.“
Spálíkan gerir ráð fyrir að minnsta kosti 750 smitum á dag jafnvel alveg fram í mars og að þá hafi um 80 þúsund smitast af veirunni hér á landi. Þórólfur segir að vissulega sé bara um spálíkan að ræða en rauntölurnar í þessari bylgju og uppsveiflu núna hafi reynst jafnvel meiri en líkanið hefur sagt til um.
„Við þurfum bara að sjá hvernig þróunin verður en það er ekki gott að tapa sér um of í framtíðarspánni. Vissulega gefur það okkur tilefni til að fara varlega. Þetta er ekkert að fara að klárast á næstu dögum,“ segir Þórólfur en ítrekar að ef satt reynist að Ómíkron-afbrigðið, sem virðist vera alveg að taka yfir, valdi síður alvarlegum veikindum, þá sé hægt að fara að líta til þess að aflétta takmörkunum.
„Þannig höfum við alltaf unnið.“