Kona á sjötugsaldri lenti heldur betur í lukkupottinum þegar hún hreppti þrefaldan vinning í Lottó á sjálfum jóladag en hún var sú eina sem var með allar tölur réttar. Nam vinningurinn rúmlega 41,1 milljón króna.
Þetta kemur fram í tilkynningu Íslenskrar getspár.
Konan hafði ákveðið að kaupa miðann fyrir mikla tilviljun en við valið á röðum brá hún ekki af vana og fjárfesti í þremur þar sem hún á þrjá syni.
Tölurnar voru lesnar upp á jóladag en konunni varð þó ekki ljóst um vinninginn fyrr en í gær þegar hún lét athuga miðann á sölustað. Rak hún upp stór augu þegar henni var tilkynnt um vinninginn.
Stefnir hún á að verja vinningnum í að greiða eftirstöðvarnar af húsnæðisláni sínu. Hún ætlar þó fyrst að fagna með sonum sínum en þeir eru nú í heimsókn hjá henni yfir hátíðarnar. Annars eru þeir búsettir erlendis.