Victor Guðmundsson, læknir og tónlistarmaður, hefur slegið í gegn í Kína með nýju lagi sem hann samdi í tilefni Vetrarólympíuleikanna sem fram fara í Peking í febrúar.
Meðal annars var fjallað um Victor í sjónvarpsþættinum The Vibe en myndskeiðið, sem er aðgengilegt hér, er tekið upp á Íslandi.
Runólfur Oddsson hefur komið listamanninum á framfæri í Kína.
Einn af fjórum tónlistarmönnum
Að sögn Runólfs hefur umfjöllun kínverskra fjölmiðla um framlag íslensks listamanns til Vetrarólympíuleikanna þegar skapað mikil tækifæri til landkynningar. Meðal annars hafi kínverskir sjónvarpsmenn sýnt áhuga á að fjalla um íslenska náttúru.
Vísar hann til þess að sjónvarpsstöðin China International Television Network valdi Victor til að semja lag fyrir leikana, ásamt tónlistarmönnum frá Mongólíu, Kína og Ítalíu, en þeir hefjast 4. febrúar næstkomandi í Peking.
Fór á 450 útvarpsstöðvar
Runólfur hafði milligöngu um þátttöku Victors í þessu samstarfi.
„Árið 2020 kynnti ég einum þekktasta útvarpsmanni Kína tónsmíðar Victors. Úr varð að lag hans var spilað á útvarpsstöðinni China Radio International og í framhaldi af því á yfir 450 útvarpsstöðvum um heim allan. Lagið sló í gegn,“ segir Runólfur.
Eftir þessar góðu viðtökur handsöluðu þeir frændur, Victor og Runólfur, samstarf og sér sá fyrrnefndi um tónlistina en sá síðarnefndi um kynningarmálin.
Yfir hundrað milljónir séð þáttinn
„Framlag Victors er frábær landkynning fyrir Ísland. Hann var kynntur í hinum þekkta fréttaskýringarþætti The Vibe á sjónvarpsstöðinni CGTN [China Global Television Network] 22. desember síðastliðinn og var þátturinn sýndur í Kína og um allan heim.
Talið er að á annað hundrað milljónir manna hafi séð þáttinn sem er sýndur um allan heim. Þar með talið í New York, San Francisco, St. Pétursborg, París og í Mexíkóborg.
Í þættinum eru sýndar fallegar myndir af náttúru Íslands, þannig að þetta er frábær kynning á Íslandi,“ segir Runólfur.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.