Áherslan má ekki vera á skammtímaávinning

Bjarni segir verkefnið nú að rækta garðinn áfram.
Bjarni segir verkefnið nú að rækta garðinn áfram. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Lágir vextir, hófleg verðbólga og hátt atvinnustig eru stærstu hagsmunamál heimilanna í landinu. Þetta þarf að hafa í huga á nýju ári, bæði í komandi kjaraviðræðum og ákvörðunum um útgjöld hins opinbera.“

Þetta segir Bjarni Benediktsson, formaður sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu í dag.

Áherslan megi ekki vera á skammtímaávinning á kostnað velferðar til lengri tíma. Með samstilltu átaki sé hægt að stuðla að bættu umhverfi og raunverulegum framförum, öllum til hagsbóta.

Óhætt að fullyrða að stefnan hafi gengið upp

Bjarni segir íslenskt samfélag hafa staðið á traustum grunni þegar þegar heimsfaraldurinn skall á. Árin þar á undan hafi hagur ríkissjóðs farið batnandi, kaupmáttur heimilanna hafi aukist verulega og atvinnustarfsemi vaxið þróttur. Allt þetta hafi skipt miklu máli og því verið hægt að marka þá stefnu að vaxa út úr vandanum.

„Að standa með heimilum og fyrirtækjum í stað þess að ráðast í skattahækkanir og niðurskurð. Frá upphafi var deilt um margt varðandi útfærsluna. Var nóg að gert eða var jafnvel teflt á tæpasta vað? Í öllu falli var ljóst að efnahagsstefnan krafðist þess að veita háar fjárhæðir úr ríkissjóði í fjölbreyttar stuðningsaðgerðir í þeirri trú að ávinningur allra yrði meiri að lokum.“

Óhætt sé að fullyrða að stefnan hafi gengið upp, enda hafi atvinnuleysi minnkað hratt frá síðustu áramótum og sé svipað og fyrir faraldurinn.

Verkefnið sé að rækta garðinn áfram

„Þrátt fyrir áfallið hefur kaupmáttur haldið áfram að vaxa og aldrei verið meiri. Vextir eru lágir í sögulegu samhengi og tekist hefur að halda verðbólgu innan þolanlegra marka. Meiri umsvif, sterk einkaneysla og fleiri störf skila sér í því að afkoma ríkissjóðs batnar um 120 milljarða milli ára. Skuldahorfur eru um 300 milljörðum betri til næstu fimm ára en áður var áætlað.“

Verkefnið sé nú að rækta garðinn áfram. Stuðla að vexti, tryggja velferð, stöðugleika og verðmætasköpun, bæði til að byggja og bæta en ekki síður til að vera búin undir ófyrirséðar áskoranir framtíðar. 

„Haldið verður áfram að stórefla heilbrigðiskerfið; Landspítalann, heilbrigðisstofnanir um land allt, heilsugæsluna og sérhæfða þjónustu. Frítekjumark atvinnutekna hjá ellilífeyrisþegum hefur verið tvöfaldað, bætur örorkulífeyrisþega hækka umfram almennar prósentuhækkanir og barnabætur halda áfram að hækka. Við erum að reisa nýtt þjóðarsjúkrahús, munum fjölga hjúkrunarheimilum, bæta samgöngur og halda áfram að fjárfesta í Stafrænu Íslandi. Markmiðið er að byggja enn öflugra, heilbrigðara, grænna og stafrænna samfélag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert