„Samfélagi sem leggur áherslu á velferð barna og hlustar á raddir þeirra hlýtur að farnast vel. Þannig samfélag horfir til framtíðar með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi.“ Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, Innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu í dag.
Hann segir áherslu Framsóknarflokksins lengi hafa verið á velferð barna og að ný lög um velsæld barna, sem samþykkt hafi verið undir lok síðasta kjörtímabils, sýni glöggt þess merki.
„Þær breytingar sem lögin um velsæld barna og sú samþætting sem unnið var að í tíð Ásmundar Einars Daðasonar sem félags- og barnamálaráðherra fela í sér hefur í för með sér að veggir og þröskuldar milli ólíkra kerfa voru brotnir til. Það er orðið algjörlega skýrt að barnið er hjartað í kerfinu og að hagsmunir þess séu alltaf í öndvegi,” segir Sigurður sem vonast til þess að þær lýsingar sem reglulega hafi heyrst í fjölmiðlum heyri sögunni til innan skamms.
Í vinnunni við lögin hafi sérstaklega verið reiknað út hvaða áhrif breytingarnar hefðu í för mér sér efnahagslega. Þar hafi komið í ljós að áhersla á velsæld barna hafi ekki bara gríðarlega jákvæð áhrif á einstaklinginn sjálfan heldur komin hún til með að skila samfélaginu öllu fjárhagslegum ávinningi.
„Sé stutt við þau börn sem á því þurfa að halda aukast líkurnar á því að þau njóti aukinna lífsgæða á lífsleiðinni.“
Þá fer Sigurður yfir þær breytingar sem hafa orðið með nýju Innviðaráðuneyti þar sem húsnæðismál, skipulagsmál, samgöngur, sveitarstjórnar- og byggðamál heyri nú öll undir sama ráðuneytið. Það gefi tækifæri til að leggja meiri áherslu á húsnæðismál um allt land.
„Það verður að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði. Húsnæði er frumþörf manneskjunnar og má ekki vera fjárhagslegt happdrætti. Með betri og breiðari yfirsýn er hægt að ná þessu jafnvægi og leiða saman ólíka aðila til að bæta lífsgæði íbúa landsins og búa betur að fjölskyldum, hvar sem þær ákveða að stofna heimili.“