Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, stingur upp á málamiðlunum fyrir stjórnarflokkana í áramótagrein sinn í Morgunblaðinu í dag. Ekki gangi lengur að ýta öllum ágreiningsmálum á undan sér og því verði einn flokkur að gefa eftir prinsippmál á einu sviði gegn því að fá framgengt prinsippmáli á öðru sviði.
„Vandinn er að jaðrarnir lengst til hægri og vinstri hafa hvor um sig neitunarvald við ríkisstjórnarborðið. Á meðan hreyfist ekkert. Hinn svonefndi miðjuflokkur beitir sér síðan lítið, svo lengi sem hann fær sína ráðherrastóla,“ segir Þorgerður Katrín.
Fyrri tillaga Þorgerðar um málamiðlun snýr að aðgerðum í lofslagsmálum, en hún segir að til að vera forysturíki í orkuskiptum þurfum við að flytja og framleiða meira rafmagn og tryggja innviðina. Það þurfi líka að gera til að auka verðmætasköpun í margvíslegum hugverkaiðnaði sem byggi á orkunotkun.
„Þetta vilja allir. En það er ágreiningur um leiðir. Það er meirihluti á Alþingi fyrir nauðsynlegum virkjunum til þess að ná þessu tvíþætta markmiði. Í samræmi við rammaáætlun. En til þess að hann geti orðið virkur þarf VG að falla frá stífri andstöðu við öll ný skref.”
Síðara málið lítur að breytingum til að ná friði um stjórnkerfi fiskveiða. Þar segir Þorgerður komið að Sjálfstæðisflokknum að láta af andstöðu við allar breytingar í staðinn fyrir framgang í orkumálum.
„Það er ríflegur þingmeirihluti fyrir tímabindingu veiðiréttarins, eðlilegu gjaldi fyrir einkarétt og nýjum reglum til þess að bæta gegnsæi, hindra of mikla samþjöppun og tryggja dreifðari eignaraðild. Það má líka ætla drjúgan stuðning á þingi við markaðsgjald fyrir veiðiheimildir en hátt í 90 prósent þjóðarinnar styður þá leið.“
Hún segir málamiðlun af þessu tagi einu leiðina fyrir nýjan sjávarútvegsráðherra til að komast hjá því að skila ráðuneytinu í sömu sporum og hún tók við því.
„Vitaskuld þarf að taka með sams konar hætti á miklu fleiri málum. Ég nefni þessi tvö viðfangsefni vegna þess að mikilvægi þeirra verður ekki dregið í efa og afdráttarlaus meirihluti er fyrir lausnum af þessu tagi. Ef jaðarflokkarnir falla frá neitunarvaldi sínu sem þeir hafa beitt óspart.“