Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG, segir árið 2022 færa okkur margar stórar áskoranir. Miklu máli skipti að vel takist við að byggja efnahaginn upp að nýju, ná stöðugleika í verðlagi og vöxtum og koma ríkissjóði smám saman á réttan kjöl.
„Þar mun reyna á stjórnvöld að skapa þær aðstæður að Ísland geti vaxið til aukinnar velsældar út úr kreppunni; við getum staðið vörð um þá uppbyggingu sem orðið hefur í almannaþjónustu á undanförnum árum og forsendur til að efla hana enn frekar. Þá mun reyna á stjórnvöld og aðila vinnumarkaðarins með vönduðum undirbúningi í aðdraganda kjaraviðræðna ef tryggja á áframhaldandi bætt lífskjör alls almennings,“ segir Katrín í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu í dag.
Hún segir okkur stödd í miðri tæknibyltingu á sama tíma og loftslagsváin ógni tilveru okkar. Áhrifin ráðist hins vegar af því hvernig okkur muni miða í aðgerðum, sem þurfi að ná til samfélagsins alls.
„Við höfum sett fram þá metnaðarfullu sýn í nýjum stjórnarsáttmála að Ísland verði meðal fyrstu þjóða heims til að ná fullum orkuskiptum og verða óháð jarðefnaeldsneyti fyrir 2040. Til þess að svo geti orðið þarf orkuskipti í öllum geirum; sjávarútvegi, ferðaþjónustu, þungaflutningum, samgöngum á landi, láði og legi. Þar má líka nefna aðgerðir í landnotkun – landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis og þar þurfum við að stórefla aðgerðir okkar. “
Katrín bendir á að við fyrir síðan hafi aðal umræðan í samfélaginu verið um hvort Ísland hefði tryggt sér nægilega mikið magn af bóluefni gegn Covid-19. Marir hafi efast um að íslensk stjórnvöld hefðu staðið vaktina í þeim efnum. Þær efasemdir hafi ekki verið á rökum reistar. Faraldrinum sé hins vegar hveri nærri lokið og álagið á samfélagið allt verið mikið
„Andleg heilsa hefur verið forgangsmál stjórnvalda, ein af velsældaráherslum okkar í fjármálaáætlun og hafa fjárveitingar til málaflokksins verið auknar mjög á undanförnum árum. En andleg heilsa snýst ekki einungis um viðbrögð við vanda heldur ekki síður að skapa samfélag þar sem fólki líður vel. Þar er margt undir. Stjórnvöld hafa einbeitt sér að því að bæta stöðu hinna tekjulægstu á undanförnum árum, meðal annars með því að lækka skatta og hækka barnabætur fyrir þennan hóp, auka stuðning við félagslegar lausnir á húsnæðismarkaði og draga úr kostnaði við að sækja sér heilbrigðisþjónustu. “
Þá séu stór verkefni eru framundan til að gera enn betur í þessum efnum, meðal annars endurskoðun á almannatryggingakerfinu með það að markmiði að bæta sérstaklega afkomu þeirra örorkulífeyrisþega sem höllustum fæti standa.