Á köldum vetrardegi mátti greina heita ást þegar þau Torfi Guðlaugsson og Olga Zoëga Jóhannsdóttir, sem búa í Hvammi í Hvítársíðu í Borgarfirði, voru í gær, á næstsíðasta degi árs, gefin saman í hjónaband við athöfn í Gilsbakkakirkju þar í sveit. Séra Geir Waage, fv. sóknarprestur í Reykholti, annaðist athöfnina sem var látlaus og aðeins var allra nánasta fólk viðstatt. Einnig þó blaðamaður Morgunblaðsins, af sérstökum ástæðum og frásagnarverðum.
„Ég var ekkert að leita að ástinni, sem hins vegar fann mig,“ segir húsfreyjan í Hvammi sposk á svip. Upphaf málsins er að vorið 2013 réð Olga sig til starfa sem skálavörður í húsi Ferðafélags Íslands að Valgeirsstöðum í Norðurfirði á Ströndum. Þær Olga og Sædís Myst, dóttir hennar, fóru norður í Árneshepp í júníbyrjun. Seinna í sama mánuði var sá sem þetta skrifar á Ströndum. Tók þá mynd og stutt viðtal við Olgu, sem sagði frá sér og sínu í samtali sem birtist í Morgunblaðinu 30. júní. Staðurinn grípur mig sterkum tökum, var yfirskrift viðtalsins sem fylgdi mynd af mæðgunum með hús FÍ á Valgeirsstöðum í bakgrunni.
Næst segir af Torfa í Hvammi sem las viðtalið við Olgu og fannst áhugavert. „Og mér þótti þetta myndarleg kona, sem ég hugsaði með mér að gæti verið gaman að kynnast,“ segir bóndinn í Borgarfirði. Þegar hér var komið sögu lá reyndar fyrir að Torfi, sem sinnir járnsmíðum og öðru slíku jafnhliða búskap, ætti erindi norður á Strandir með öxul undir bátakerru. Þangað fór hann svo um verslunarmannahelgina en hafði þá áður spurt vini á Ströndum um Olgu og hennar hagi.
„Mér fannst ekki fráleitt að kanna hvort dæmið gengi upp og gagnkvæmur áhugi yrði til staðar. Aðstæður okkar voru svipaðar; við á líku reki og eigum bæði dætur á sama aldri,“ segir Torfi.
Á laugardagskvöldi um verslunarmannahelgina, 5. ágúst á því herrans ári 2013, var Olga skálavörður í gömlu fjárhúsunum á Valgeirsstöðum þegar þar birtist maður sem sagðist heita Torfi Guðlaugsson og vildi bjóða henni á ball sem var þá um kvöldið í Trékyllisvík.
„Ég var ekkert á leiðinni á ball og vissi ekkert hvaða maður þetta var, en úr því ég átti heimangengt þetta kvöld ákvað ég að þekkjast boðið. Hljómsveitin Blek og byttur spilaði, Diddú söng og ég dansaði við nokkra stráka, þar á meðal Torfa. Fór svo aftur í Ferðafélagshúsið, þar sem Torfi kom við daginn eftir og spurði hvort hann mætti fá símanúmerið mitt ef ég fengi sitt. Þá var ég líka búin að fá meðmæli nokkurra kórfélaga úr Söngfjelaginu, sem þarna voru næturgestir, um að Torfi væri vænn drengur. Sjálf gerði ég mér grein fyrir að hér væri kominn herramaður af gamla skólanum og góð manneskja,“ segir Olga.
Ekki leið á löngu uns Torfi hringdi í Olgu og nú fór boltinn að rúlla. Í september fór hún í heimsókn í Borgarfjörð til Torfa og var honum þar til halds og trausts í smíðavinnu. Allt gekk vel og fljótlega var þeim tveimur orðið ljóst að ekki yrði aftur snúið.
„Ef viðtalið og myndin af Olgu og Sædísi hefði ekki komið í Mogganum hefði þetta ævintýri aldrei átt sér stað. Ábyrgð þín í málinu er mikil,“ bætir Torfi við og beinir – hlæjandi – orðum sínum til blaðamanns.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag.