Nýárshvellurinn á morgun veldur vegfarendum þrenns konar óveðri, að því er fram kemur í tilkynningu frá veðurfræðingi Veðurstofunnar.
Í fyrsta lagi er um að ræða ofsaveður og hviður 50-60 m/s undir Eyjafjöllum og í Öræfum.
Einnig er um að ræða hríðarveður og almenna ófærð á Austur- og Norðausturlandi, að Öxnadalsheiði. Enn fremur verður norðaustanstormur og byljóttur vindur vestan- og norðvestantil. Úrkomulaust þar að mestu en staðbundinn skafrenningur og blint.