Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að fjöldi smita sem nú greinist sprengi ekki bolmagn starfsfólks fyrirtækisins. Þetta verði „tæklað eins og hvert annað verkefni“. Ljóst sé að pestin sé úti um allt en hann segist þó ekki hafa sérstakar áhyggjur af kvöldinu.
„Ég hef ekkert miklar áhyggjur af kvöldinu. Við erum bara komin á þannig stað að við þurfum að taka þetta almennilega út og það verður ekki gert í dag. Ég ætla því að hafa bara hægt um mig í kvöld og sitja með börnum og barnabörnum og reyna að taka inn augnablikið og vera ekkert að kikna úr áhyggjum.“
Hann segir þá „ljóst að pestin sé komin út um allt“ en bendir þó á að þau rúmlega fimmtán hundruð smit sem greindust í gær séu mögulega að einhverju leyti uppsöfnuð frá dögunum áður, enda tók Íslensk erfðagreining þátt sýnatökunni í gær þar sem fjöldi smita fór fram yfir getu Landspítalans til að greina.
Varðandi það að „taka þetta almennilega út“ vísar hann þá til þess sem nú stendur til að gera í byrjun næsta árs, að framkvæma mótefnamælingu með slembiúrtaki á landsvísu.
Segir Kári ljóst að niðurstöður slíkrar mælingar verði afar mikilvægar fyrir framhaldið á skipulagningu sóttvarna enda gæti komið á daginn, líkt og hann bendir á, að það sé eitthvað margfeldi af þeirri tölu sem nú eru í einangrun sem séu raunverulega smitaðir.
Helst er það þá vegna þess hve lítil einkenni stór hluti smitaðra sýnir. „Hvert það margfeldi er, veit ég þó ekki.“
Líkt og greint hefur verið frá þá úrskurðaði Persónuvernd þess efnis að fyrri mótefnamælingar Íslenskrar erfðagreiningar hafi verið glæpur. Kári segist ekki ætla að láta það stoppa sig.
„Við ætlum bara að gerast síbrotamenn og má því segja að við séum einskonar skipulögð glæpastarfsemi, ekki þó frá Lettlandi eða Albaníu heldur skipulögð glæpastarfsemi af íslenskum toga.“
Þrátt fyrir að hafa ekki miklar áhyggjur af kvöldinu segist Kári, líkt og allir aðrir, hafa áhyggjur af þeim hundraðshluta sem komi til með að verða alvarlega lasinn vegna veirunnar.
„Það sem við höfum öll áhyggjur af er þessi hundraðshluti, sem sumir segja að sé 0,7% en er að öllum líkindum minna af þeim sem smitast af ómíkron. Þolmörk sjúkrahússins eru þannig að ég veit ekki almennilega hvernig við komumst í gegnum þetta.“
Hefur þú þá í raun áhyggjur af því að spítalinn ráði ekki við þetta?
„Már Kristjánsson (yfirlæknir smitsjúkdómadeildar) er alltaf brattur og segir að við munum ráða við þetta. Það er náttúrulega ótrúlega mikið af góðu fólki niðri á Landspítala og ég held að við gröfum okkur í gegnum þennan skafl.“