Rétttrúnaður ógni grunnstoðum vestrænna samfélaga

Sigmundur Davíð segir að met hafi verið sett í brotthvarfi …
Sigmundur Davíð segir að met hafi verið sett í brotthvarfi frá rökræðu á árinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir ískyggilega þróun hafa átt sér stað á liðnu ári. Sett hafi verið met í brotthvarfi frá rökræðu, þekkingarleit, staðreyndum og heilbrigðri skynsemi. Þá hafi rétttrúnaði vaxið ásmegin sem aldrei fyrr. Þetta kemur fram í áramótagrein hans í Morgunblaðinu í dag.

„Þetta birtist meðal annars í viðbrögðum við loftslagsbreytingum. Á árinu fordæmdu margir aðgerðasinnar, stjórnmálamenn og fleiri ekki aðeins iðnbyltinguna heldur landbúnaðarbyltinguna líka. Áður gerðu flestir sér grein fyrir að þetta voru lykilatriði í framþróun mannkyns, aukinni velmegun, betri heilsu og betra og lengra lífi. Nú er þetta túlkað sem upphafið að syndsamlegu, jafnvel glæpsamlegu, athæfi mannkyns. Slík viðhorf voru til dæmis áberandi í tengslum við 26. lokatilraun Sameinuðu þjóðanna til að leysa loftslagsmálin,“ segir Sigmundur í greininni.

Afleiðingin sé sú að teknar séu rangar og oft skaðlegar ákvarðanir og á meðan verði ekki til þær lausnir sem framfaraþrá hafi skilað mannkyninu.

Ráðist í skaðlegar og gagnslausar aðgerðir

Hann segir að í loftslagsstefnu stjórnvalda sé að finna fjandskap við álframleiðslu og annan orkufrekan iðnað sem sé í raun stærsta framlag Íslands til loftslagsmála.

„Yfirbragðið ræður, ekki staðreyndirnar. Fyrir vikið er haldið áfram að bæta nýjum refsisköttum á almenning og ráðist í aðgerðir sem margar eru gagnslausar eða skaðlegar fyrir umhverfið og til þess fallnar að draga úr lífsgæðum. Með góðu eða illu eiga íslensk fyrirtæki að minnka framleiðslu og fólk á að minnka neyslu.“

Almennt jafnræði á undanhaldi

Sigmundur segir rétttrúnaðinn þó verstan. Hann ógni þeim grunnstoðum vestrænna samfélaga sem hafi skilað mestum árangri. Almennt jafnræði sé á undanhaldi og fólki sé skipt í þolendur og gerendur í stað þess að leggja áherslu á jöfn tækifæri fyrir alla. Þá sé vegið að málfrelsinu svo ekki fari fram nein rökræða. „Hugtök á borð við „hatursorðræðu“ eru útvíkkuð jafnt og þétt þar til þau lýsa ekki bara hatri heldur hverri þeirri skoðun sem fellur ekki að nýjustu rétttrúnaðarreglum.“

Um leið minnki áhrif kjósenda og flokkar frá vinstri til hægri renni saman í einn og myndi ríkisstjórn um stöður fremur en stefnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert