Samhygð og samstaða þjóðarinnar skiptir mestu þegar upp er staðið

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Eitt hefur þó ekki breyst, samhygð og samstaða þjóðarinnar þegar á móti blæs skiptir mestu þegar upp er staðið. Við höfum stutt hvert við annað og um það ríkir djúp samstaða um að við hjálpumst að þegar þörfin krefur.

Þetta sagði Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra þegar hún ávarpaði þjóðina í kvöld. 

Katrín rakti áskoranir sem árið 2021 hefur haft í för með sér; skjálfandi jörð, eldsumbrot og áframhaldandi baráttu við heimsfaraldur.

Í þessum faraldri höfum við staðið hvert með öðru, við höfum staðið saman í sýnatökuröð víða um land, við höfum hvert og eitt stutt ættingja og vini sem hafa veikst og sameiginlega höfum við beitt ríkissjóði af afli til þess að bæta almenningi og atvinnulífi sem best tjónið sem veirufárið hefur valdið.

Bólusetning reynst langbesta vörnin

Katrín minntist á gott gengi í bólusetningum við Covid-19, þrátt fyrir að efasemdaraddir hafi verið uppi um hverstu hratt þær gætu gengið.

„Væntingar okkar stóðust og síðan hefur bólusetning reynst langbesta vörn gegn smitum – og því sem skiptir enn meira máli – alvarlegum veikindum. Tala látinna á hvern smitaðan á Íslandi hefur líka lækkað og var á árinu sem er að líða einn tíundi af því sem hún var árið 2020.

Það getum við meðal annars þakkað færni okkar öfluga heilbrigðisstarfsfólks. En munum að þó talan sé ekki há þegar til heildarinnar er litið er sársauki þeirra sem missa nána ættingja engu minni og hugur okkar allra er hjá þeim sem um sárt eiga að binda vegna þessa. Faraldurinn hefur þó ekki verið stöðvaður, margir eru undir miklu álagi vegna hans og huga þarf sérstaklega vel að andlegri heilsu og velferð landsmanna á komandi mánuðum.“

Þá sagði Katrín að þrátt fyrir að Ísland komi vel út úr öllum mælikvörðum á hvernig tekist hefur verið á við veiruna, breyti það ekki því að horfa þurfi ganrýnið á eigin ákvarðanir og leita jafnan bestu leiða út frá nýjustu rannsóknum og þekkingu.

„Ég leyfi mér að vona að örlögin verði heimsbyggðinni hliðholl og núverandi smitbylgja verði upphafið að endalokunum – að þessi vágestur veiklist smám saman og sleppi því hreðjataki sem hann hefur haft á okkur undanfarin tvö ár. Að á nýju ári getum við endurheimt eðlilegt líf.“

Sjáum afleiðingar loftslagsbeytinga

Katrín vék síðan að loftslagsbreytingum.

„Við sem búum á Íslandi sjáum afleiðingar loftslagsbreytinga, horfum á jöklana hopa, sjáum skriður falla og verðum vör við breytingar í hafinu umhverfis landið. Við sjáum órækan vitnisburð vísindanna um magn koldíoxíðs í lofti og fylgni við hækkandi hitastig í heiminum. Við vitum líka að þessari þróun er hægt að breyta og við vitum að það er skylda okkar að gera það sem í okkar valdi stendur til þess að breyta henni – ekki síst í þágu komandi kynslóða, barna dagsins í dag.“

Sagði hún að Ísland ætti að skipa sér í forystusveit þeirra þjóða sem nýta vísindin og hugvitið til að takast á við loftslagsvána.

Heilbrigðismerki að fæðingum fjölgi

Katrín sagði að mikilvægt væri að stalda við og fanga þeim árangri sem náðst hefur.

„Þannig hefur fæðingarorlof verið lengt og greiðslur hækkaðar. Það er gleðiefni að fæðingum hefur fjölgað – hvort sem það er nú orlofinu að þakka eða eirðarleysi í faraldrinum. Það er heilbrigðismerki á samfélaginu sem við getum verið ánægð með. Og lengra fæðingarorlof og betra afkomuöryggi skapar aukna möguleika á samveru fullorðinna og barna, styður við jafnvægi vinnu og einkalífs og styður við jafnrétti kynjanna. Allt eykur þetta velsæld almennings sem er þarft og mikilvægt viðfangsefni.“

Katrín óskaði landsmönnum gleðilegs árs og sagði: „Við njótum margs í okkar góða samfélagi og sækjum okkur kraft í líf okkar og reynslu til að sækja fram, sækja fram til betra lífs og bættra kjara fyrir okkur öll og framtíðina. Með krafti og samstöðu eru okkur allir vegir færir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert