Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sinnti nokkrum útköllum í gærkvöldi og nótt þar sem kviknað hafði í blaðagámum og ruslafötum út frá flugeldum. Einnig var tilkynnt um gróðurelda vegna flugelda.
Varðstjóri hjá slökkviliðinu segir í samtali við mbl.is að þetta sé svipað og það hafi verið undanfarin ár á þessum árstíma og eigi eftir að aukast í dag og næstu nótt en greiðlega gekk að slökkva alla elda.
Þá var lögregla í tvígang kölluð til vegna umferðarslysa, að því er fram kemur í dagbók hennar. Annað óhappið varð í Hafnarfirði á níunda tímanum en þá urðu ekki slys á fólki.
Hitt var á Kjalarnesi um klukkan eitt í nótt. Þar var einn handtekinn vegna gruns um ölvunarakstur og var hann fluttur í fangageymslu.