Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að þrátt fyrir að Íslendingar hafi það að meðaltali gott þá búi alltof margir við slæm kjör hér á landi. Velsæld og nálægð við hvert annað ætti að koma í veg fyrir að við létum það viðgangast.
Forgangsverkefni stjórnvalda sé að styrkja almannaþjónustu, koma á sanngjarnara skattkerfi og auka jöfnuð.
„Við megum ekki sætta okkur við að aldraðir hafi ekki efni á nauðsynlegri læknisþjónustu, öryrkjar horfi inn í tóman ísskáp síðustu daga hvers mánaðar, fötluð börn og börn frá efnaminni heimilum geti ekki notið tómstunda og að of lítið sé hirt um sjúkdóma sem sjást ekki utan á fólki,“ segir Logi í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu í dag.
Hann segir jafnframt að við séum nógu vel sett til að taka á móti fleira fólki sem leiti hingað til lands í neyð. Gæðin skorti ekki en skipta þurfi þeim jafnar.
Einnig þurfi að horfast í augu við þá hættu sem framtíðar kynslóðum sé búin vegna ofbeitar á jörðinni. Lengst af vegna grandvaraleysis en í seinni tíð með fullri meðvitund um afleiðingarnar.
„Mannkynið stendur andspænis risavöxnum siðferðisvanda og Íslendingar eru ekki undanskildir. Stjórnvöld verða að hvetja til hagkvæmrar skynsamlegrar byggðar, stórefla almenningssamgöngur, leiða græna umbyltingu atvinnulífsins, efla alþjóðlegt samstarf og verja til alls þessa nægu fé.“
Logi segir öll þau risaverkefni sem við stöndum andspænis verði leyst nema byggt sé á gildum réttlætis og samhjálpar og í miklu víðtækara alþjóðlegu samstarfi en áður. Það sé því forgangsverkefni stjórnvalda að styrkja almannaþjónustu, koma á sanngjarnara skattkerfi og auka jöfnuð.
Um leið þurfi að tryggja nauðsynlegar aðgerðir gegn loftslagsógninni og að sókn á tækniöld leiði ekki til ójöfnuðar. Þá þurfi að breyta stjórnarskránni þannig að Ísland geti tekið þátt í fjölþjóðlegu samstarfi í meira mæli en áður.