Þrír hundar komust ekki lifandi heim til sín

Sandra Ósk Jóhannsdóttir vill láta banna flugelda vegna þess hve …
Sandra Ósk Jóhannsdóttir vill láta banna flugelda vegna þess hve algengt er að hundar fælist og týnist vegna látanna sem fylgja þeim. Ljósmynd/Aðsend

Gríðarlega algengt er að hundar fælist og týnist vegna flugeldaláta yfir áramótin. Þetta segir Sandra Ósk Jóhannsdóttir, sjálfboðaliði í Hundasveitinni svokölluðu, í samtali við mbl.is.

Hún vill að flugeldar verði bannaðir.

Hundasveitin er hópur sjálfboðaliða sem starfar undir frumkvöðlafyrirtækinu Dýrfinnu sem veitir ráðgjöf um hvernig best er að haga leit eftir aðstæðum, tegund og persónuleika þeirra dýra sem týnast.

Flestir hundar týnist vegna flugelda yfir áramót

Við erum samtals átta stelpur í Hundasveitinni og brennum allar fyrir sama málefninu sem er að leita markvisst að týndum dýrum. Við búum til auglýsingar, virkjum aðra sjálfboðaliða og tökum sjálfar þátt í leitum án endurgjalds,“ segir Sandra.

Að sögn Söndru eru hátíðarnar háannatími hjá Hundasveitinni enda týnist flest dýr þá, ekki síst vegna flugeldaláta yfir áramótin. Yfir áramótin í fyrra hafi fimmtán hundar týnst og þrír þeirra ekki komist lifandi heim til sín aftur.

„Það er mikilvægt að hundaeigendur geri varúðarráðstafanir fyrir þennan tíma svo dýrið fælist ekki í burtu og týnist. Það skiptir engu máli hversu heimakær hundurinn er því allir hundar geta orðið hræddir, t.d. við hávaðann í flugeldunum.“

Því sé mikilvægt að fólk hleypi hundum sínum ekki lausum út á milli jóla og nýárs þegar mest er verið að sprengja flugelda. Þá þurfi að huga sérstaklega að þeim hundum sem eru í pössun þar sem algengast er að hundar týnist þegar þeir eru í pössun.

„Svo er gott að eiga GPS-tæki, t.d. Tractive, ef ske kynni að hundurinn myndi sleppa út og týnast. Nauðsynlegt er að hundurinn sé sýnilegur í myrkri, t.d. með LED-hálsól eða LED-vesti, því það getur bæði sparað eigendum og sjálfboðaliðum tíma í leit og er öryggisatriði þar sem bílar eru líklegri til að sjá hundana hlaupi þeir yfir götur.“

Mörg dýr eru hrædd við flugeldalætin sem fylgja áramótunum.
Mörg dýr eru hrædd við flugeldalætin sem fylgja áramótunum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ýmsar leiðir til að róa gæludýr yfir þennan tíma

Innt eftir því segir Sandra ýmislegt hægt að gera til að róa þá hunda sem eru hvað órólegastir yfir flugeldalátunum á áramótunum. Það sé til að mynda hægt að kaupa sérstakar olíur, hálsólar, úða, vafninga og fóður sem hjálpi bæði hundum og köttum að slaka á.

„Einnig er hægt að fá róandi lyf í samráði við dýralækni fyrir dýr sem eru mjög stressuð.“

Sandra biður þá sem vilja sprengja flugelda um áramótin að sýna nærgætni og tillitssemi gagnvart bæði börnum og dýrum með því að sprengja ekki utan leyfilegs tíma.

„Fólk verður að gera sér grein fyrir því að dýrin skilja ekki hvað er í gangi. Þau verða mörg hver alveg skelfingu lostin og geta lent í slysi, bæði villt dýr og gæludýr.“

Fengi hún að ráða yrði þó með öllu bannað að sprengja flugelda um áramótin á Íslandi.

„Ég vil banna flugelda. Mér finnst ekki þess virði að sjá ljós með hávaða í einhverjar sekúndur þegar dýrin verða skelfingu lostin. Þar að auki eru þeir hræðilegir fyrir umhverfið og þeim fylgir mikil slysahætta, bæði fyrir menn og dýr.“

Flugeldasala er ein helsta tekjulind björgunarsveitanna á Íslandi.
Flugeldasala er ein helsta tekjulind björgunarsveitanna á Íslandi. mbl.is/Árni Sæberg

Spurning um hvenær flugeldar verði bannaðir

Þá veltir hún upp spurningunni um það hvort fólki þyki dýr minna virði en tímabundin skemmtun.

„Það voru þrír hundar sem týndust síðustu áramót og komust ekki lifandi heim til sín aftur og það er þremur hundum of mikið. Þetta er ekki spurning um það hvort flugeldar verði bannaðir heldur hvenær.“

Aðspurð segist Sandra vel meðvituð um að flugeldasala sé ein helsta tekjulind björgunarsveitanna í landinu, sem sinni reglulega leitarstörfum án endurgjalds rétt eins og hún sjálf. Bendir hún þó réttilega á að hægt sé að styðja björgunarsveitirnar með öðrum hætti, t.d. með því að gerast bakvörður, með frjálsum framlögum eða með kaupum á rótarskoti.

„Ég styð fólk heilshugar í því að styrkja björgunarsveitirnar sem eru stoð og stytta samfélagsins.“

Að endingu hvetur Sandra þá sem týna hundinum sínum yfir hátíðirnar til að auglýsa hundinn týndan á netinu og hafa strax samband við Hundasveitina í síma 612-3007.

„Tíminn er svo gríðarlega mikilvægur þegar kemur að leitum núna, svo fólk verður að vera meðvitað um að láta okkur strax vita.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert