Steinar Ingi Kolbeins
Áætluð útvíkkun leiðbeininga um vinnusóttkví sem átti að taka gildi nú á hádegi í dag hefur verið frestað. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, segir í samtali við mbl.is að hann hafi gert mistök við undirbúning verkefnisins og seinkunin skrifist í raun á það.
„Ég gerði bara mistök í því að fá ekki fulltrúa ASÍ við borðið og þess vegna funduðum við með þeim í morgun og fengum frá þeim góð og haldbær rök.“
Víðir segir þá að vegna þessara mistaka, sem hann baðst einnig afsökunar á, að þá verði gildistöku vinnusóttkvíarinnar seinkað eins og er.
Ekki liggur fyrir hve lengi en fundað verður með aðilum vinnumarkaðarins í dag og á morgun og því vonir um að hægt verði að leysa málin fljótt og örugglega.
Með vinnusóttkvínni segir hann að verið sé að ákveðnu leyti að færa ábyrgðina yfir á atvinnurekendur og er verið að gera þetta til þess mæta þeirri stöðu sem nú er uppi hvað varðar fjölda þeirra sem eru „úr leik“.
En eins og Víðir bendir á þá hafa aldrei áður í baráttunni við veiruna verið jafn margir í sóttkví og einangrun.
„Við erum bara að horfa á heildarmyndina og skoða þau áhrif sem þessi fjöldi sem er úr leik hefur á starfsemi samfélagsins.“