„Velkominn til Noregs tvö,“ segir Ólafur Gunnar Högnason glettinn á svip þegar hann sækir blaðamann á flugvöllinn í Evenes í Nordland-fylki Noregs í byrjaðan desember. Förinni er heitið til ísfirskrar fjölskyldu í Bardufoss í Troms-fylki, langt norðan heimskautsbaugs, og fer hér á eftir óstytt útgáfa viðtals sem birtist í Morgunblaðinu á Þorláksmessu.
Húsmóðirin norður í Bardufoss er Guðrún Hrefna Sigurðardóttir, vaktstjóri mötuneytis einna stærstu herbúða Noregs, Bardufoss leir, þar sem hún útbýr fjölda máltíða dag hvern fyrir 850 unga norska hermenn, sem ætlað er að verja landið öllum mögulegum ógnum, þar á meðal hugsanlegri innrás Rússa er gert hafa sig digra gagnvart ýmsum nágrannaríkjum hin síðustu misseri.
Téður Ólafur Gunnar, Óli hér eftir, er eiginmaður Guðrúnar og með Noregi tvö vísar hann réttilega til þess að Suður- og Norður-Noregur eru eins og tvö lönd, blaðamaður á bágt með að verjast hrolli í nær 30 stiga frosti þrátt fyrir úlpu og íslenskt viðhorf, hitinn við flugtak í Ósló fyrr um daginn var við frostmark. Norður-Noregur er sannarlega ólíkur heimur, aksturinn frá Evenes, skammt frá bænum Narvik, er nasistar gerðu frægan í nafntogaðri orrustu síðari heimsstyrjaldarinnar, tekur á þriðju klukkustund.
„Þetta er nú bara skottúr,“ segir Óli og hlær dátt, í Troms þykja 200 kílómetrar engin vegalengd. „Þú skreppur ekkert eftir mjólk hérna,“ segir húsmóðirin Guðrún þegar við Ólafur stígum loksins inn í hlýjuna í vistlegu einbýlishúsi þeirra og tökum að ræða lífshlaup þessara gestrisnu hjóna í Noregi hvar þau eiga enn fremur þrjú uppkomin börn.
Við hefjum frásögnina þó á vinnudegi Guðrúnar, en eftir því sem við komumst næst eru hún og Runný Ólafsdóttir, dóttir þeirra Ólafs, einu íslensku ríkisborgararnir sem fastráðnir eru í vinnu hjá norska hernum. Klukkan rúmlega fimm um morgun aka Guðrún og blaðamaður á vinnustað Guðrúnar, mötuneyti hersins. Þar er sko engin lognmolla fram undan, jólahlaðborð fyrir tæplega þúsund vaktmenn konungsríkisins Noregs.
„Þú verður að fara í kokkagalla, öðruvísi verður þér ekki hleypt inn í eldhúsið,“ segir Guðrún við blaðamann. „Hver, ég?“ spyr undirritaður og glápir á Ísfirðinginn eins og andatrúarmaður á útfrymi. „Ég sé engan annan hér,“ svarar Guðrún og getur ekki varist brosi. Lendingin verður sú að blaðamaður smokrar sér í hvítan alklæðnað, fær sér kaffibolla og gengur fram í eldhús þar sem langur vinnudagur er að hefjast. „Við byrjum á að undirbúa morgunverðinn, sem er núna rétt strax, svo förum við í matinn fyrir jólahlaðborðið, þar megum við engan tíma missa,“ segir Guðrún ákveðin, „við erum með tæplega þúsund manns í mat.“
Undirmenn hennar ganga í eldhúsið einn af öðrum, átta manns á vakt, fullmannað, þar á meðal eru kokkalærlingarnir og herstelpurnar Mona Rønning Bakås og Iris Marie Pedersen, hernaður kallar á ýmsar stöður, þar á meðal matreiðslufólk, og Guðrún, sem einmitt er kokkur að mennt, byrjar á að yfirheyra lærlingana um hvernig kalkún er matreiddur, kjarnhita og önnur fræði. Stúlkurnar svara af bóklærðri þekkingu og blaðamaður fetar sig út í horn með kaffibollann.
Sá friður varir ekki lengi. „Þú verður eiginlega að hjálpa okkur,“ úrskurðar Guðrún, „við erum fáliðuð og þurfum að skera allan þennan humar,“ heldur hún áfram, rúllar heilli stæðu af frosnum kanadískum humri í hendur blaðamanns, með augum, fálmurum og öllu, fer yfir hvernig meltingarvegurinn og endaþarmurinn er fjarlægt og skilur blaðamann eftir skelfingu lostinn, vopnaðan eggvopni og svuntu.
Þarna fékk sá er hér ritar fyrsta áfallið þennan dag – ekki það síðasta.
Næst mættu 800 barnungir hermenn í morgunmat, sá minnsti þeirra stúlka um 160 sentimetrar á hæð vopnuð að minnsta kosti jafnlöngum hríðskotariffli sem hún lagði frá sér í þar til gert statíf eins og ekkert væri. Blaðamaður laumaðist inn í hliðarherbergi og settist skelfingu lostinn út í horn þar.
Svo fór þetta nú að skána. Litla herstelpan og kokkaneminn Iris Marie færði blaðamanni kaffibolla og tjáði honum að svona væri lífið bara í norska hernum, vopn og agi. Deyðu fyrir fósturjörðina, hún er ekki að fara að deyja fyrir þig. Nema hvað?
Að lokum fór landið að smárísa. Hinir og þessir gáfu sig á tal við blaðamanninn frá Íslandi, dálítið forvitnir. Allt í einu varð norski herinn bara ákaflega viðkunnanlegur, einhver börn í felulitum, ósköp sæt og indæl. Svo lauk vakt Guðrúnar og við ókum heim, tæplega klukkutíma akstur, það þykir nú ekki mikið í Norður-Noregi. Líklega hef ég samt aldrei lyst á humri aftur.
Þar með hefst viðtalið, í tæplega 30 stiga frosti í notalegu einbýlishúsi Guðrúnar og Ólafs. Húsfreyjan er ákaflega gestrisin, býður upp á hreindýr og rauðvín, börn, makar, eitt barnabarn og eitt gæludýr koma í heimsókn og það er bara virkilega gaman í þessari heimsókn lengst norður. En hvernig stendur á þessari búsetu?
„Við Óli erum frá Ísafirði og við lifðum nú bara hálfgerðu verbúðalífi, fengum frí í skólanum til að vinna í frystihúsinu,“ segir Guðrún og hlær af innileika. „Við fengum nú ekkert bestu kennarana vestur á firði, þangað komu sumir sem fengu ekki stöður í Reykjavík og dönskukennslan var nú bara ömurleg skal ég segja þér,“ heldur húsmóðirin áfram, sem í dag talar þó reiprennandi norsku.
Blaðamann fýsir að vita hvernig þessi stórskemmtilegu og gestrisnu hjón kynntust. Óli verður til svars í fyrsta sinn í viðtalinu, „Í skólanum bara,“ segir hann, sýgur vape-pípu sína, lítur hugsandi út um glugga þakinn frostrósum og á við barnaskólann á Ísafirði. „Við vorum bara hópur af krökkum, það var efri bærinn og neðri bærinn eins og það var kallað,“ tekur Guðrún við. „Ég tók svo einn bekk í Menntaskólanum á Ísafirði, ég hafði ekkert að gera í skóla, ég vildi bara fara að vinna,“ segir Guðrún og lítur djúpt í augu blaðamanns. „Þú ert bara settur í vinnu, ég fór bara í frystihúsið eins og flestir.“ Vestfirðingar vita hvað skiptir máli í lífinu.
Þau Óli bjuggu enn fremur um tíma í Súðavík, þar sem hann starfaði sem vélstjóri í rækjuvinnslunni, og voru búsett þar þegar snjóflóðið féll í janúar 1995, einn myrkasti harmleikur sem íslensk þjóð hefur horfst í augu við. „Það var óskaplega erfitt og ég veit ekki hvort ég er tilbúin að tala mikið um þann atburð. Ég svaf ekki eina nótt þar eftir snjóflóðið,“ segir Guðrún alvöruþrungin. „Við höfðum ekki þessar rætur sem Súðvíkingar höfðu, fólk missti allt sitt þarna og við sem vorum aðflutt, Ísfirðingar, okkur fannst við vera að yfirgnæfa annarra manna sorg, við áttum börn á lífi og sluppum frá þessu.
Maður áttar sig kannski ekki á þessu fyrr en 25 árum síðar hvað maður var upptekinn af því að leyfa þeim sem báru þyngstu sorgirnar að eiga þær í friði. Fólk missti börnin sín og heimili og þetta er bara ofboðslega viðkvæmt mál það sem gerðist þarna,“ segir húsmóðirin alvöruþrungin. „Ég gat ekki hugsað mér að fara í kirkju, ég vildi ekki skíra barnið mitt af því að mér fannst ég vera að gera lítið úr sorg bæjarbúa með því að fara í kirkju,“ heldur hún áfram og blaðamaður á fá svör við þessari hreinskilnu frásögn.
Guðrún hefur allt sitt atvinnulíf unnið við matvæli, en Óli er logsuðumaður, smíðar gáma hjá fyrirtæki sem er tugi kílómetra frá Bardufoss, en hér þykja tugir kílómetra reyndar ekki neitt. Þau fluttu svo til Noregs árið 2002.
„Óli vann sex daga vikunnar í Járni og blikki í Kópavogi og ég vann nánast allan sólarhringinn en samt áttum við ekki ofan í okkur að éta. Ef þú ferð röngum megin við núllið á Íslandi áttu þér ekki viðreisnar von,“ segir Guðrún þungbúin. Að lokum gáfust þau upp á baslinu. „Ákvörðun okkar um að flytja var tekin 2001, en þá var pabbi að koma úr hjartaaðgerð, ég gat ekki skilið hann eftir í því ástandi,“ rifjar hún upp.
„Ég hugsaði með mér að það hlyti að vera betra að flytja til Noregs eða Danmerkur frekar en að vera hérna í þessu striti,“ segir Guðrún og fylgir þar hugur augljóslega máli. „Við mættum í Norrænu með 3.500 norskar krónur, við vorum alveg á hausnum. Við gerðum okkur enga grein fyrir því hvers konar vegalengdum við kæmum til með að standa frammi fyrir, við gerðum okkur enga grein fyrir hvað bensín kostaði í Noregi, né hvað matur kostaði þar. Við áttum ekki krónu,“ segir vaktstjórinn hjá norska hernum, greinilega veraldarvanari í dag.
„Æ Óli, getur þú ekki sagt frá þessu, þú komst nú hérna á undan?“ biður Guðrún og Óli tekur við. „Jú, ég get það svo sem, ég fékk lánaðan bíl hjá nágrönnum mínum og var svo bara að skoða blöðin og sækja um vinnu.“ Þróuðust málin svo, að Óli hringdi í suðuverkstæðið Botnhamn Sveis, um 60 kílómetra frá fyrsta búsetustað sínum í Noregi, og fór þangað á lánsbílnum.
„Ég sagði bara við þá reddið mér bara einhverju húsnæði og ég skal bara koma að vinna á morgun. Ég flaug út 14. apríl og byrjaði að vinna 2. maí,“ rifjar Óli upp af atburðum vorsins 2002. Ekki lengi gert hjá Vestfirðingnum. Hér tekur Guðrún við: „Við vorum ekkert vön því að sækja um vinnu, fyrir vestan þekkti maður bara mann og hlutirnir redduðust bara,“ og þau hjónin hlæja bæði, enda hið skemmtnasta fólk.
„Hérna var alltaf verið að spyrja mann um CV [ferilskrá] og ég vissi bara ekkert hvað það var,“ heldur Guðrún frásögninni áfram. Hún byrjaði með vindinn í fangið eftir að hún kom út til Óla, þá til Botnhamn. „Þarna voru bara þrjú fyrirtæki, Botnhamn Sveis, fiskvinnslan og búðin. Ég vissi að ég væri ekkert að fara að vinna í búðinni, ég talaði ekki norsku,“ segir Guðrún sem augljóslega var ekki heldur að fara í suðuna með manni sínum.
„Ég fór í fiskvinnsluna, þar sem aðallega var verið að vinna með lax, og var sagt þar að ekki vantaði fólk í vinnu. Svo ég fór bara þangað á hverjum degi, settist þar á bekk og var bara að fylgjast með því hvernig vinnslan gengi fyrir sig, ég var dálítið spennt fyrir laxaslátrun. Þetta var ægilega gamaldags þarna, þeir stóðu þarna karlarnir með sígarettuna í kjaftinum yfir laxinum,“ segir Guðrún og hlær.
Áhugi hennar og staðfesta skiluðu sér hins vegar að lokum, eins og stundum vill verða. „Hvað ætli ég hafi verið búin að sitja þarna, þrjá daga eða fjóra, þá kom eigandinn til mín og sagði „mættu bara á mánudaginn klukkan hálfátta“, þetta var eini staðurinn sem ég gat unnið á þarna á svæðinu,“ segir Guðrún og svo fóru leikar. Í bili.
Adam var nefnilega ekkert mjög lengi í Paradís, alla vega ekki til að byrja með. Skórinn kreppti jafnan yfir háveturinn í Botnhamn og var málið jafnan leyst með því að starfsfólk var „permitterað“ eins og það heitir á norskunni, sent heim á hlutalaunum. Á þessum tíma, fyrir 20 árum, nutu Guðrún og Óli hins vegar ekki sömu réttinda og nýaðfluttir gera nú.
„Þarna var [norska vinnumálastofnunin] NAV ekki komin, þetta hét Trygdeetaten og við áttum engan rétt á „permitteringu“, vorum orðin skítblönk og áttum varla fyrir mat, rafmagni eða neinu. Þá kemur bróðir mömmu að máli við okkur,“ segir Guðrún, sem er norsk í móðurættina, „og bauð okkur að flytja inn í húsið, sem afi minn og amma áttu, því það stóð tómt. Staðsetningin á húsinu var mitt á milli Botnhamn og Bardufoss,“ útskýrir hún.
Þau gripu tækifærið og fluttu ásamt börnum sínum inn í téð hús. Guðrún hafi í kjölfarið, eftir að hafa starfað skamma hríð í rækjuvinnslu, þar sem einnig þurfti að senda fólk heim tímabundið vegna verkefnaskorts, verið stödd á skrifstofu atvinnuleysismála að fara yfir stöðuna og þar hafi verið ákveðið að senda hana á námskeið fyrir útlendinga, þar sem kennd voru vinnubrögð við atvinnuumsóknir á norskum vinnumarkaði.
„Jú jú, ég hafði svo sem ekkert annað að gera og þarna var okkur sýnd auglýsing úr Folkebladet þar sem ISS var að leita að fólki í, að ég hélt, uppvask. Við á námskeiðinu vorum svo látin æfa okkur með því að skrifa umsókn um þetta starf, nema hvað að ég sendi mína umsókn og er boðuð í viðtal.“
Þetta reyndist, þó töluvert einfaldað í þessu viðtali, upphaf núverandi starfsferils Guðrúnar, sem fljótlega var tekin til við að steikja kótelettur ofan í 35 manns, í janúar 2005, starfsemin töluvert umfangsminni þá en nú, rúmum 15 árum síðar. „Svo stækkaði þetta og stækkaði og ég svona hálftók við rekstrinum á þessu með fólki sem ég fann og ekki fann,“ segir Guðrún og hláturinn glymur í stofunni, enda Runný dóttir hennar, og samstarfskona, viðstödd viðtalið. „Þarna hafa nánast allir komið við sögu sem hafa getað skorið tómat,“ heldur Guðrún áfram og blaðamaður finnur til lotningar að tilheyra nú þeim hópi eftir humarævintýrið góða.
Hversu þykir henni þá að vera yfirmaður á vinnustað, Íslendingum jafn framandi sem norskar herbúðir eru, stjórnandi í mötuneyti sem krefst almennt 300 brauða og 300 lítra af mjólk dag hvern, svo aðeins brot sé nefnt? „Ég lít eiginlega ekki á mig sem yfirmann,“ svarar Guðrún með hægð, „ég álpaðist inn í einhverja millistjórnendastöðu alveg óvart.“ Ekki orð um það meir þótt blaðamaður beiti þeirri kunnu viðtalstækni að bíða átekta steinþegjandi eftir að einhver innri stífla viðmælandans bresti sem í vorleysingu.
Hvað þá með staðsetninguna, langt norðan Íslands í strjálli byggð þar sem margra tuga stiga frost virðist daglegt brauð, að minnsta kosti sé litið til þessarar þriggja daga heimsóknar í desember? „Þetta er náttúrulega minna mál fyrir Ísfirðinga en flesta, sólin hverfur reyndar svipað lengi [í mánuðum talið] í Skutulsfirði og hér. En myrkrið er miklu svartara hér,“ greinir Guðrún hnattstöðuna og Óli tekur undir það með vape-strókinn úr vitum sér.
„Mig langar rosalega til að prófa að búa fyrir sunnan áður en ég fer frá Noregi,“ játar Guðrún og lofar blaðamanni um leið að hún ætli sér ekki að verða 67 ára í Norður-Noregi. „En það er erfitt að flytja frá börnunum sínum og svo má ekki gleyma því að við erum orðin amma og afi líka, sem spilar auðvitað inn í,“ bætir hún við. Þá geti það vitanlega einnig verið ókostur að geta ekki hoppað beint upp í flugvél til Íslands, verði þörf á slíku með litlum fyrirvara. Við slíkar aðstæður þarf að byrja á að koma sér til Óslóar, eða einhverra þeirra borga eða bæja þaðan sem flug til fósturjarðarinnar er í boði.
Komið er að sögulokum. Þessari eftirminnilegu heimsókn til Bardufoss lauk í tæplega 30 stiga frosti með ökuferð til baka til flugvallarins í Evenes eftir þriggja daga heimsókn hjá ákaflega geðþekkum íslenskum yfirmanni í norska hernum og fjölskyldu, sönnum vestfirskum nöglum.