Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú skotárás sem gerð var á íbúð í fjölbýli í Kórahverfi í gærmorgun. Er þetta sjöunda skotárásin í hverfinu frá því í byrjun desember. Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn staðfestir árásina í samtali við mbl.is.
Greint frá málinu fyrst á vef Vísis.
„Já það er þarna skotið á glugga í fjölbýlishúsi í hverfinu og er ytra glerið á glugganum brotið vegna þessa.“
Kúlan náði þó ekki inn í íbúðina þar sem hún festist, eins og áður segir, í ytra lagi tvöfaldrar glerrúðunnar. Árásin er þá keimlík þeim sem hafa verið gerðar í hverfinu undanfarinn mánuð.
Skúli segir að talið sé að árásin sé gerð með loftbyssu en það sé þó ekki endanlega komið á hreint, málið sé í rannsókn. Ljóst sé þó að ekki er um að ræða skot úr riffli eða haglabyssu.
Eitthvert magn sé þá af slíkum loftbyssum á landinu, sumar hverjar skráðar en aðrar ekki. Segist hann ekki vera með neina haldbæra tölfræði þess efnis og vildi því lítið fullyrða um fjölda slíkra vopna hér á landi.
Árásirnar í hverfinu undanfarinn mánuð hafa þá ekki beinst að sama heimilisfanginu en spurður hvort mögulega gæti verið að ungmenni stæðu að baki þessum árásum vildi hann lítið tjá sig.
„Þetta er bara í rannsókn og ég get því ekkert meira verið að tjá mig um það eða verið að „fabúlera“ neitt um málið.“