Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu slökkti nokkra gróðurelda í nótt, þótt þeir væru töluvert færri en á nýársnótt. Alls fór slökkviliðið í 15 útköll á næturvaktinni eftir að gærdagurinn var frekar rólegur.
Samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra var nokkuð líflegt hjá þeim í gærkvöldi en öll hafa verkefnin gengið vel.
Áfram er að kvikna í gróðri út frá flugeldum en auk þess var kveikt í gámum og slökkviliðið sinnti enn fremur vatnsleka. Þá kom eldur upp í þaki í húsi í Laugardalnum en búið var að slökkva hann þegar slökkvilið kom á vettvang.
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri sagði í samtali við mbl.is í gær að óvenjumikið álag hefði verið á slökkviliðsmönnum á nýársnótt.