Árnasafn í Kaupmannahöfn hefur synjað Landsbókasafninu í Ósló um langtímalán á nokkrum skinnhandritum frá miðöldum sem varða sögu Noregs. Var ætlunin að þau yrðu á nýrri fastasýningu sem unnið er að í safninu. Norðmenn eru ósáttir við þetta og ætla ekki að láta málið niður falla. Hafa þeir óskað eftir frekari viðræðum um það. Frá sjónarhóli Dana snýst málið um að vernda handritin, hafa þau aðgengileg til rannsókna – og síðast en ekki síst að skapa ekki fordæmi sem gæti gefið kröfugerð um endurheimt margvíslegra menningarminja frá öðrum þjóðum aukinn byr í seglin.
Forsaga málsins er sú að snemma á síðasta ári fóru Landsbókasafnið norska og þáverandi menntamálaráðherra landsins, Abid Raja, að grennslast fyrir um möguleika á því að fá lánuð ellefu til tólf miðaldahandrit sem varðveitt eru annars vegar í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn og hins vegar í Árnasafni. Konungsbókhlaða hefur markað þá stefnu að heimila langtímalán handrita til allt að fimm ára. Erindi Norðmanna var því tekið vel innan þeirra marka. Þar eru fimm handritanna. En annað var uppi á teningnum í Árnasafni. Var sagt að langtímalán kæmi ekki til greina þar sem hin gömlu skinnhandrit væru viðkvæm og gætu borið skaða af því að vera á sýningu lengur en þrjá mánuði. Þá væri það rannsóknunum á handritunum til trafala ef þau væru ekki aðgengileg fræðimönnum á sínum stað.
Anna Metta Hansen, safnvörður við Árnastofnun, viðurkenndi þó í samtali við danska ríkisútvarpið á dögunum að innan stjórnar safnsins væri einnig horft til þess að mál af þessu tagi hefði fordæmisgildi jafnt fyrir Dani sem aðrar þjóðir, svo sem Englendinga, Þjóðverja og Frakka, sem glíma við kröfur um skil menningarminja utanlands frá. Og Íslendingar gætu þá sett fram sams konar óskir varðandi handrit sem skrifuð voru á Íslandi á miðöldum og enn eru varðveitt í Árnasafni í samræmi við handritasamkomulag þjóðanna.
Landsbókavörður Norðmanna, Aslak Sira Myhre, er ákaflega óánægður með svörin sem fengist hafa frá Árnasafni. Hann orðar það þannig að hann samþykki ekki nei sem svar. Kveðst hann ætla innan tíðar til Kaupmannahafnar og ræða málin betur við stjórnvöld og yfirmenn Árnasafns. Bendir hann á að handritin sem óskað er eftir að lánuð verði varði norska sögu en ekki danska og séu aðeins í Árnasafni fyrir þá sögulegu tilviljun að Noregur og Danmörk voru í konungssambandi fyrr á tíð.
Ekki eru allir í Danmörku sama sinnis og stjórnendur Árnasafns. Þannig hefur Christian Juhl, þingmaður Enhedslisten og talsmaður flokksins á sviði norræns samstarfs, lýsti stuðningi við óskir Norðmanna og ætlar að taka málið upp við menntamálaráðherra Dana. Hann vill að Kaupmannahafnarháskóli, sem fer með yfirstjórn Árnasafns, endurskoði afstöðu sína. Lán á skjölum og munum á milli Norðurlandanna sé mikilvægur þáttur í menningarsamstarfi þeirra. Minnir hann á að ekki er langt síðan Svíar afhentu Dönum elsta handrit Jótlandslaga, Jyske Lov frá 1280, til langtímavistar. Það hafði verið varðveitt í Svíþjóð í um þrjú hundruð ár. Telur Juhl það fordæmi sem vert sé að fylgja.