Svifryk ekki yfir mörk á nýársdag

Fyrstu klukkustundir nýársdags einkennast gjarnan af svifryksmengun á höfuðborgarsvæðinu.
Fyrstu klukkustundir nýársdags einkennast gjarnan af svifryksmengun á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Árni Sæberg

Svifryk fór ekki yfir sólarhringsheilsuverndarmörk á nýársdag 2022 en fyrsti dagur ársins hefur oft farið yfir mörkin vegna flugeldanotkunar. Svifryk fór 10 daga yfir heilsuverndarmörk á árinu 2021.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Í ár var hæsti svifrykstoppurinn klukkan eitt við Vesturbæjarlaug, 118,5 míkrógrömm á rúmmetra. Við Bústaðaveg var síðasta klukkustund ársins 2021 með hæstu svifryksgildin, 116,4 míkrógrömm á rúmmetra. 

Svifryk er fínasta gerð rykagna sem eiga greiða leið í öndunarfærin en heilsuverndarmörk á sólarhring miðast við 50 míkrógrömm á rúmmetra, segir í tilkynningunni.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu biðlaði til fólks að draga úr flugeldanotkun vegna sinuelda og kynni það að hafa dregið úr því magni sem skotið var upp. Svifryk fór ekki yfir sólarhringsheilsuverndarmörk á nýársdag eins og svo oft áður vegna flugeldanotkunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert