Yngstu börnin í forgangi

Árbæjarskóli er um átta þúsund fermetrar sem hjálpar þegar hólfa …
Árbæjarskóli er um átta þúsund fermetrar sem hjálpar þegar hólfa þarf skólann niður. mbl.is/Sigurður Bogi

Starfsdagur er í grunnskólum á morgun og þar er skólunum gefið ráðrúm til þess að ákveða hvernig skólastarfi verður háttað á næstunni. Guðlaug Sturlaugsdóttir, skólastjóri í Árbæjarskóla, segir að keyrt verði á eins hefðbundnu skólastarfi og unnt er næstu vikurnar. Ef skerða þurfi starfsemi verði það fyrst gert hjá eldri börnum. Fyrsti til fjórði bekkur sé í forgangi hvað varðar óskert skólastarf.

„Planið hjá okkur er að fara af stað með venjulegt skólastarf, en fylgja að sjálfsögðu þeim takmörkunum sem eru í gildi, svo sem 50 börn í hólfi og 20 starfsmenn. Grímuskylda ef ekki er unnt að tryggja fjarlægð og þar fram eftir götunum,“ segir Guðlaug í samtali við mbl.is.

Árbæjarskóli er býsna stór og nemendafjöldinn undanfarin ár verið á bilinu sex til sjö hundruð nemendur. Bygging skólans er þó einnig stór, eða um átta þúsund fermetrar. Þetta hjálpar mikið til að sögn Guðlaugar enda einfaldar það hólfaskiptingu og að tryggja fjarlægðarmörk.

Vegna þess hve vel sé hægt að hólfa niður telur hún að unnt verði að veita nær alla þjónustu sem vanalega er veitt, á borð við skólamat. Hún bendir þó á að húsakostur sé mismunandi milli skóla og því ekki ljóst hvort aðrir skólar geti gert slíkt hið sama.

Ljóst er að veikindi muni koma upp, sennilegast meðal bæði starfsfólks og nemenda, en Guðlaug segir að við því verði brugðist þegar að því kemur.

„Við bara bregðumst við því á hverjum tíma fyrir sig. Mest áhersla verður þó lögð á að fyrsti til fjórði bekkur verði alltaf í fullum skóladegi. Þannig að ef til vandræða kemur munum við skerða hjá elstu krökkunum fyrst. Jafnvel þurfa að semja við kennara um að flytja sig á milli deilda. En ég er með afskaplega góðan og öflugan starfshóp svo ég held að það verði bara leyst.“

Álag vegna rakninga skólastjórnenda

Skólastjórnendur tóku nú í haust að sér það verkefni að annast smitrakningu innan skólanna. Var ákvörðunin tekin í lok sumars þegar margir töldu okkur vera að sigla út úr faraldrinum. Annað hefur komið á daginn og segir Guðlaug rétt að álag hafi aukist vegna þessa.

„Já, ég verð að viðurkenna það. Það er álag í tengslum við þessar rakningar. En við gerum þetta samt enda þarf að sinna þessu. Ég og aðstoðarskólastjórarnir hér ákváðum samt snemma að taka þetta á jákvæðninni.“

Guðlaug segir ljóst að maður velji sér viðhorf og það skipti miklu máli í þessu eins og öðru að vera með jákvæðnina að vopni. Kannski sér í lagi þar sem stjórnendur eru „iðulega að þessu á kvöldin og um helgar“.

„Fólk velur sér ekki að verða veikt, og það á við um börnin líka. Við skömmumst ekki í fólki fyrir það, við bara vinnum með því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert