5G sé öruggt flugvélum

Stofnunin segist hafa skoðað málið síðan seint á árinu 2020 …
Stofnunin segist hafa skoðað málið síðan seint á árinu 2020 í sambandi við Samgöngustofu, Isavia auk fleiri aðila. AFP

Fjarskiptastofa hefur sent frá sér yfirlýsingu um að 5G hér á landi og í Evrópu hafi að öllum líkindum ekki áhrif á hraðamæla flugvéla sem fljúga um álfuna.

Stofan muni þó halda áfram að fylgjast með framvindu mála og mæla hvort útsendur styrkur 5G senda nær flugleiðum hérlendis sé innan marka.

Stofnunin segist hafa skoðað málið síðan seint á árinu 2020 í sambandi við Samgöngustofu, Isavia auk fleiri aðila.

Í yfirlýsingunni segir að prófanir á vegum Evrópskra fjarskiptaeftirlitsaðila (CEPT) meðal annars í Noregi og Frakklandi hafi ekki bent til neinna truflana á hraðamælum flugvéla í Evrópu.

Bandaríkin noti hærra tíðnisvið

Í yfirlýsingu Fjarskiptastofu segir að tíðnisvið fyrir 5G í Evrópu sé á bilinu 3,4 til 3,8 gígarið (GHz) á meðan hraðamælarnir eru 4,2 GHz.

Þá noti Bandaríkin noti hærra tíðnisvið fyrir 5G en Evrópa, nær þeirri tíðni sem hæðamælarnir noti.

Er yfirlýsing send frá stofnuninni í ljósi frétta um að stærstu flugfélög Bandaríkjanna hafi farið fram á frestun innleiðingar 5G þar í landi en tvö stærstu farsímafyrirtækin, AT&T og Verizon stigu fram í dag og sögðust ekki ætla að fresta innleiðingunni.

5G var fyrst tekið upp hér á landi þann 5. maí 2020 og var fyrst um sinn aðeins í boði fyrir valda Android-síma en tæknin færðist í aukana níu mánuðum síðar, í febrúar 2021, þegar bandaríski tæknirisinn Apple opnaði fyrir 5G-stuðning fyrir iPhone-síma hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert