Tíð rúðuskipti vegna árása

Kórahverfi í Kópavogi.
Kórahverfi í Kópavogi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Árásirnar sjö sem hafa verið gerðar á fjölbýlishús í Baugakór í Kópavogi að undanförnu hafa beinst að tveimur tveggja hæða húsum.

Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir um alvarlegar árásir að ræða á heimili þar sem fjölskyldur búa. „Það eru mikil eignaspjöll þegar þarf að skipta um rúður hvað eftir annað,“ segir hann. Þannig hefur sama fjölskyldan þurft að skipta um sömu rúðuna oftar en einu sinni vegna skotárása.

Loftbyssa eða teygjubyssa

Ekki er ljóst hvort notuð hafi verið loftbyssa eða teygjubyssa við verknaðinn. Hann segir kúlur í loftbyssum yfirleitt vera mun minni en kúlurnar sem hafa verið notaðar í árásunum og því ekki hægt að fullyrða neitt að svo stöddu.

Skotin hafa yfirleitt farið í gegnum ytra gler rúðanna en stöðvast á innra glerinu.

Sérsveitin ekki kölluð út 

Spurður hvort einhver eða einhverjir séu grunaðir um árásirnar segir hann málið einfaldlega vera í vinnslu hjá rannsóknardeild lögreglunnar. Engar vísbendingar hafa borist um mögulega gerendur.

Gunnar segir einnig, aðspurður, að sérsveitin hafi ekki verið kölluð út vegna árásanna því hún fáist eingöngu við vopnaða menn sem eru á staðnum. Ekki hefur því þótt ástæða til að kalla hana út.

Hann segir skiljanlegt að íbúar Kórahverfisins séu uggandi um þessar mundir og hvetur fólk til að hafa samband við lögregluna viti það hver eða hverjir hafi mögulega verið að verki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert