Bæjarfulltrúarnir Ásgeir Sveinsson og Kolbrún Guðný Þorsteinsdóttir sækjast eftir því að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ í komandi sveitarstjórnarkosningum. Framboðsfrestur rann út 21. desember síðastliðinn.
Þetta kemur fram á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins.
Prófkjörið fer fram 5. febrúar og taka alls sautján manns þátt í því, níu konur og átta karlar. Í annað sæti bjóða sig fram þær Arna Hagalíns, Helga Jóhannesdóttir og Jana Katrín Knútsdóttir.
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ, gaf út í nóvember að hann hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri. Hann hefur verið bæjarstjóri síðan 2007.
Sjálfstæðismenn í Mosfellsbæ fengu fjóra af níu bæjarfulltrúum í síðustu sveitarstjórnarkosningum og rúm 39% atkvæða.