Bólusetning barna fari frekar fram á heilsugæslum

Salvör Nordal, umboðsmaður barna.
Salvör Nordal, umboðsmaður barna. mbl.is/Hari

„Við höfum lagt til að þessi ákvörðun verði endurskoðuð,“ segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna, í samtali við mbl.is um að bólusetning barna á aldrinum 5-11 ára við Covid-19 fari fram í skólum. 

Salvör segir að hún og skrifstofa umboðsmanns hafi fengið sterk viðbrögð við ákvörðuninni og verið í sambandi við sóttvarnayfirvöld vegna fyrirkomulagsins.

„Við höfum fengið mjög sterk viðbrögð frá foreldrum þess efnis að bólusetningarnar fari ekki fram í skólanum. Fólk hefur auðvitað mismunandi skoðanir á því hvort að bólusetja eigi börnin og við getum ekki tekið afstöðu til þess en við finnum að það að þetta eigi að fara fram í skólunum vekur mjög sterk viðbrögð. Mögulega vegna þess að fólk vilji taka sér lengri tíma til að hugsa málið eða jafnvel ætli ekki að bólusetja börnin til a byrja með,“ segir Salvör. 

Virða beri viðkvæmar persónuupplýsingar

Hún segir mikilvægt að þessar viðkvæmu persónuupplýsingar um börnin, hvort að þau þiggi bólusetningu eða ekki, séu virtar. „Að þetta fari fram með félögunum, að það geti orðið umræða á meðal krakkanna eftir á. Þetta fyrirkomulag er í rauninni opið gagnvart öðrum krökkum, foreldrum, kennurum og skólasamfélaginu, hver fer síðan í bólusetningu og hver ekki.“

Þá bendir Salvör á að skólinn sé ekki endilega besti staðurinn til að hlúa að börnum, skyldu þau vera hrædd eða líða yfir einhver. „Þau vilja heldur kannski ekki vera í þeirri aðstöðu gagnvart öðrum börnum,“ segir Salvör.

Hagkvæmi ekki í fyrirrúmi

Umboðsmaður barna hefur lagt fram mat til sóttvarnayfirvalda þess efnis, að óánægja með fyrirkomulagið á meðal foreldra kalli á að bólusetningarnar verði færðar inn á heilsugæslustöðvarnar. Mikilvægt sé að hagkvæmisrök verði ekki í fyrirrúmi heldur hagsmunir barnanna þegar kemur að framkvæmdinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka