Djúp lægð á leiðinni

Lægðin gæti slegið einhver met.
Lægðin gæti slegið einhver met. Skjáskot/blika.is

Það sjást varla dýpri lægðir en sú sem er á leiðinni til landsins á fimmtudaginn næstkomandi, af því er frá greinir á veðurfræðivef Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings. 

Einar segir í samtali við mbl.is of snemmt að segja til um hvort hún muni valda óveðri en þau fylgja oft djúpum lægðum. „Maður hrekkur alltaf svolítið við þegar maður sér svona djúpar lægðir, sérstaklega þegar þær koma án allra fyrirboða. Hún eiginlega bara sprettur úr einhverjum hálfgerðum rólegheitum,“ segir Einar.

Ekki er líklegt þó að þessi lægð slái dýptarmetið en þó er ekki útilokað að um verði að ræða dýpstu lægð þessarar aldar.

Á vef Einars greinir frá því að yfir suðurríkjum Bandaríkjanna sé nú lægð sem veldur miklu vetrarveðri á austurströndinni í dag en hún heldur síðan áfram upp með ströndinni og suður fyrir Nýfundnaland. Þar mætir lægðin mjög köldu lofti og dýpkar hratt á miðvikudag en á fimmtudagsmorgun er lægðamiðjunni spáð vestur af Faxaflóa. Standist spárnar verði þrýstingur í lægðamiðju 925 hPa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert