Einar Þorsteinsson fréttamaður á Rúv og einn frammámanna í Kastljósi hefur ákveðið að hverfa af þeim vettvangi. Hann greindi frá þessum áformum í kveðju til samstarfsmanna í dag en gefur ekki upp hvað hann tekur sér næst fyrir hendur.
Kjarninn greindi fyrst frá en Einar segir í samtali við mbl.is að hann geti ekki enn sagt frá hvað hann ætli sér að gera. Í kveðju sinni til samstarfsmanna, sem Kjarninn birti, segir þó að hann hafi fengið atvinnutilboð sem hann vildi ekki hafna.
„Ég er rosalega þakklátur fyrir að hafa fengið að vinna hérna. Hér hef ég átt mína allra bestu vini og Rúv hefur verið mitt annað heimili síðustu tæplega 18 ár. Það hafa verið forréttindi að vinna að því að þjóna almenningi með því að veita valdinu aðhald og spyrja fyrir fólkið heima í stofu. Það er hlutverk sem mér hefur þótt rosalega vænt um og það er söknuður af þessu starfi,“ segir Einar við mbl.is.
Þessi tíðindi af Einari eru ekki þau einu sem borist hafa af starfsliði Rúv upp á síðkastið. í nóvember var tilkynnt að Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri Rúv, myndi láta af störfum og skömmu fyrir áramót var greint frá því að Baldvin Þór Bergsson yrði nýr ritstjóri breytts Kastljóss. Hann hefur undanfarin ár starfað sem dagskrárstjóri Rásar 2.