Forstjóri Landspítala fékk veiruna

Forstjóri Landspítala, Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir.
Forstjóri Landspítala, Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir. Kristinn Magnússon

Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, starfandi forstjóri Landspítalans, smitaðist af kórónuveirunni rétt fyrir jól. Þessu greindi hún frá í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

„Sjálf lenti ég í einangrun og fékk Covid þarna fyrir jól. Þá finnur maður svolítið á eigin skinni hversu ótrúlega góð maskína þetta er.“

Sjálfvirknin sé orðin mikil á Covid-göngudeild spítalans. „Þetta er ekki eins og þetta var í fyrstu bylgju þegar það var hringt í alla. Þú merkir þig og metur þitt heilsufar.“

Nær 8.000 manns eru nú í einangrun og undir eftirliti á Covid-göngudeild spítalans. Flokkað er eftir alvarleika veikindanna og nú er aðeins er hringt í þá sem flokkast gulir og rauðir.

„Þetta er heilmikið umstang [...] og það þarf að manna þetta eins og allt annað í kerfinu.“

Voru í raun á neyðarstigi

Hún talaði þar einnig um þá staðreynd að spítalinn væri kominn á neyðarstig.

„Það þýðir að spítalinn ræður ekki einn við atburðinn, hann þarf utanaðkomandi aðstoð,“ sagði hún. Þá hafi spítalinn lengi vel unnið undir skilgreiningunni hættustigi þó svo hann hefði í raun verið á neyðarstigi.

„Við höfum fundað, forstjórar heilbrigðisstofnana, um það hvernig hægt sé að dreifa álaginu.“

Þá talaði hún um að um og yfir 200 starfsmenn spítalans séu nú frá vinnu vegna veirunnar og hefur sú tala staðið í tæpa viku. Nú er ljóst að hún sjálf var ein af þeim sem þurfti að vera fjarri vinnu vegna veirunnar.

Víðtæk samvinna heilbrigðis- og menntakerfis

Spurð hvað það þyrfti til þess að Landspítalanum „liði vel“ varðandi mönnun og annað sagði hún að það þyrfti víðtæka samvinnu bæði heilbrigðisyfirvalda og menntamálaráðuneytis til þess að manna heilbrigðiskerfið. Slíkt gerðist ekki yfir nótt.

„Það er bara þannig að við höfum verið sofandi síðustu árin. Þetta gerist ekki af sjálfu sér. Það þarf að taka ákveðinn tíma, það þarf að mennta starfsfólk,“ sagði hún og bætti við að ekki þyrfti aðeins fleiri hjúkrunarfræðinga og lækna í stéttina heldur einnig starfsfólk á borð við félagsráðgjafa, sjúkraliða og svo framvegis.

„Það þarf að taka höndum saman og einhvern vegin lyfta þessum málaflokki meira upp. Þetta eru ótrúlega skemmtileg störf.“ Umræðan væri þó oft og tíðum neikvæð.

„Hún má bara ekki vera það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert